138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að verja drjúgum hluta af ræðu minni í það að reyna að sýna fram á hvernig ríkisstjórnin hafi með purkunarlausum hætti verið að beita alls konar grímulausum hótunum varðandi stöðu þessa máls. Ég rakti lið fyrir lið hvernig ráðherrar hafa orðið tvísaga í þessum efnum, hvernig sumt af því sem þeir hafa sagt um stöðuna gagnvart einstökum alþjóðastofnunum virðist ekki standast nánari skoðun.

Þetta mál allt er hins vegar mjög á huldu og það er mjög óheppilegt að eftir þá umræðu sem hefur staðið yfir alla þessa daga skuli niðurstaðan vera sú að málið er enn óljósara en það var áður. Maður taldi sig skilja einhvern hluta af þessum þætti málsins áður en umræðan hófst en nú er það orðið enn óljósara vegna þess að ráðherrarnir tala á þann hátt að þeir hafa frekar gert málið óljósara og kannski er það gert vísvitandi. Hér hefur verið hvað eftir annað gengið eftir því, m.a. af hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, að öll spilin væru lögð á borðið, allt þetta væri gert heyrum kunnugt. Ekkert af þessu hefur borið árangur. Hæstv. ráðherrar hafa varist fimlega, eru með leyndarhjúpinn sem þeir virðast helst vilja umlykja málið eins mögulega og þeir geta. Ég hef helst látið mér detta í hug að síðasta úrræði Alþingis sé að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd á þessum afmarkaða þætti málsins: Hver er það sem hefur verið með hótanirnar? Hver er það sem hefur verið að taka okkur í gíslingu? Hver er það sem hefur verið að beita þessum brögðum og þeim fantaskap sem verið er að kenna ýmist Evrópusambandinu, Bretum, Hollendingum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum og fleira mætti örugglega til taka?