138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það vakti athygli mína í morgun þegar ég var að lesa blöðin fréttatilkynning frá aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Garðabæ þar sem hæstv. félagsmálaráðherra var m.a. gestur auk þess sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var líka gestur fundarins en hún er líka félagi í Samfylkingarfélaginu í Garðabæ. Í tilkynningunni segir m.a.:

„Jafnframt hvetur Samfylkingin í Garðabæ þingmenn VG til þess að taka þingflokk Samfylkingarinnar sér til fyrirmyndar og ganga í takt og í samræmi við ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, öllum til heilla.“

Ég vil lesa þetta aftur: … hvetur Samfylkingin í Garðabæ þingmenn VG til þess að taka þingflokk Samfylkingarinnar sér til fyrirmyndar og ganga í takt og í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann.

Ég hugsaði fyrst um sinn: Var Samfylkingarfélagið í Garðabæ að árétta við Samfylkinguna í fyrri ríkisstjórn þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn með okkur sjálfstæðismönnum að taka þann samfylkingarpart sér til fyrirmyndar? Alla vega veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir vill taka undir og hvort til að mynda hæstv. forsætisráðherra sé að tala í gegnum m.a. svona ályktanir og nýta sér svona ályktanir í þessa veru. Ég spyr: Er þetta í anda þess að reyna að efla samstöðu innan ríkisstjórnarinnar? Við þurfum náttúrlega á samstöðu að halda á þessum tímum þó að við viljum, sum hver, fara í eitthvað allt annað. En ég vil spyrja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur hvort hún taki þá heils hugar undir það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð gangi í takt. Er VG búin að vera svona svakalega óþekk hreyfing? Er hún ekki búin að uppfylla ríkisstjórnarsáttmálann eins og greinilega má lesa út úr þessari ályktun Samfylkingarfélagsins í Garðabæ sem er nokkuð furðuleg?