138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Aðalfundur Samfylkingarinnar í Garðabæ var haldinn í vikunni. Stjórn félagsins lagði fram þrjár ályktanir, ef ég man rétt, sem voru allar samþykktar. Ein var um að fagna uppbyggingu hjúkrunarheimila í kjördæminu, önnur var áskorun til stjórnarandstöðunnar um að láta af málþófi í Icesave-málinu og sú þriðja var um ríkisstjórnarsamstarfið og áskorun til samstarfsflokks Samfylkingarinnar eða þingmanna Vinstri grænna um að huga nú að því að starfa eftir ríkisstjórnarsáttmálanum og ganga í takt eins og það var orðað í ályktuninni.

Nú er það svo að í félögum Samfylkingarinnar um allt land, og Garðabærinn er þar á meðal, er líflegt og gott, frjálst og opið félagsstarf og þar tjá menn hug sinn og fara ekki í felur með skoðanir sínar. Stjórn félagsins lagði þessar ályktanir fram á fundinum og þær voru samþykktar og þykir mér það með öllu fullkomlega eðlilegt. Mig langar kannski af þessu tilefni að minna hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur á að þegar við sátum saman í ráðuneyti Geirs H. Haardes þá gengu stundum sendingar þannig á milli að sú sem hér stendur var oftar en ekki tekin upp af hv. þingmönnum sjálfstæðismanna og skömmuð blóðugum skömmum fyrir það að framfylgja stjórnarsáttmálanum. Það er því ekkert nýtt að menn hafi skoðanir á samstarfsflokknum eða vilji lýsa þeim en þetta var ekkert annað en jákvæð og uppbyggileg athugasemd í anda systralags og bræðralags og þess samstarfs sem við eigum með Vinstri grænum.