138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir miklum áhyggjum af þeim fréttum sem komu fram í gær. Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fór í óundirbúna fyrirspurn við hæstv. fjármálaráðherra í gær og má segja að það virtist vera að hæstv. ráðherra hafi verið algerlega óundirbúinn undir þá fyrirspurn í orðsins fyllstu merkingu þar sem hann segist ekki kannast við að það séu til neinar nýrri tölur en þær sem hafi verið unnar og birtar um skuldaþol íslenska ríkisins. Síðan veit ég ekki betur en það sem gerist sé að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eiga fundi með fulltrúum stjórnmálaflokkanna þar sem þeir staðfesta það sem formaður Framsóknarflokksins spurði um, að skuldir þjóðarbúsins eru umtalsvert hærri en áður var talið. Áður var talað um að þær væru kringum 310% af vergri landsframleiðslu og flestum þótti alveg nóg um en nú er verið að tala um að þær séu í kringum 350%. Hins vegar virðist sem seðlabankastjóri hafi ekki allt of miklar áhyggjur af þessu, þrátt fyrir að þetta séu alveg óhugnanlegar tölur og sjáist eiginlega hvergi í heiminum, og talar um að þetta sé eitthvað sem lendi að verulegu leyti á útlendingum. En er þetta ekki eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að vera upplýstur um, hafa fengið einhverjar upplýsingar um að skuldastaðan væri þetta mikil eða getur verið að hæstv. ráðherra hafi hreinlega verið að ljúga að þinginu í gær, hann hafi verið að segja ósatt þegar spurt var um þetta? Ef ekki verð ég að segja að ég hef miklar áhyggjur af því að hæstv. ráðherra sé hreinlega ekki að standa sig í stykkinu í sínu starfi og ég hef líka miklar áhyggjur af því sem kemur fram hjá seðlabankastjóra þar sem hann talar um skuldir ríkissjóðs að þær séu hins vegar ekki út úr neinu korti miðað við það sem gengur og gerist í ýmsum löndum. Vil ég þá benda á eitt nefndarálitið frá efnahags- og skattanefnd þar sem kemur fram að aðeins eitt þróað hagkerfi er með hærra skuldahlutfall hins opinbera en Ísland og það er Japan. Er Japan eitthvað sem við viljum líkja eftir?