138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skemmti mér áðan yfir ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar þar sem hann vísaði væntanlega í eitthvert annað viðtal en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vísaði í. Þingmenn Vinstri grænna eiga ekki bara að ganga í takt við þingmenn Samfylkingarinnar, þeir eiga líka að taka sér þá til fyrirmyndar.

Í þessu viðtali eru fréttamennirnir greinilega að spyrja út í niðurskurðinn í fæðingarorlofskerfinu og hvar eigi að skera niður. T.d. spyr Lára:

„En þú segir að þér finnist sumir ráðherrar ekki ganga nógu langt og þið gangið ekki nógu langt í að skera niður þessa hluti. Á hverju strandar það? Hverjir eru það sem standa í vegi fyrir því?“

Með leyfi forseta segir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra:

„Ég held að það séu engir einstaklingar sem standa gegn því, ég er einfaldlega að segja að alvörustigið hjá ríkinu þurfi að vera meira.“

Það er í kjölfar þess að hann sagði að aðhaldsstigið annars staðar einkenndist af miklu alvöruleysi. Í rauninni er þetta ekkert annað en bein árás á þá fjárlagagerð sem verið hefur í gangi hjá hæstv. fjármálaráðherra og væntanlega líka á þá vinnu sem nú þegar hefur farið fram innan fjárlaganefndar.

Ég vil einnig benda á að hæstv. ráðherra segir hér líka að ríkisstjórnin hafi skert tekjur aldraðra og öryrkja á þessu ári. Það er búið að skerða bætur vel stæðra (Forseti hringir.) lífeyrisþega og við stöndum frammi fyrir því á næsta ári að skerða þjónustu við fatlaða, sem er grunnþjónusta. Með öðrum orðum, það er verið að ráðast á (Forseti hringir.) velferðarkerfi þjóðarinnar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill hvetja þingmenn til að halda tímamörk.)