138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur ekki heyrt ítrekuð boð stjórnarandstöðunnar um að greiða fyrir málsmeðferð á þinginu þannig að ég hvet hana til að fara til baka og lesa þær ræður vegna þess að ég ætla ekki að eyða tíma mínu í að endurtaka þær fyrir þingmanninn. En þetta er nákvæmlega það sem er að gerast. Samfylkingin vill núna banna stjórnarandstöðuna. Hún sendir kunnuglegar eiturpillur til samstarfsflokksins og það hríslaðist hrollur niður eftir bakinu á mér í morgun þegar ég las fréttirnar úr Garðabæ um að nú eigi að beina þeim tilmælum til samstarfsflokksins að ganga nú í takt.

Já, frú forseti. Það má segja að það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði, að þetta væru jákvæðar og uppbyggilegar athugasemdir, að það eru þær svo sannarlega miðað við aðrar athugasemdir sem borist hafa úr herbúðum Samfylkingarinnar til Vinstri grænna. Ég veit ekki betur en að einn liðsmaður þeirra af Suðurnesjunum hafi spurt þeirrar spurningar hvort hæstv. umhverfisráðherra væri annaðhvort vanhæf eða veruleikafirrt. Tilmæli, skipanir, hótanir til fólks um að ganga í takt eru því miðað við það jákvæð og uppbyggileg en þetta er algerlega með ólíkindum. Hér segir annar ríkisstjórnarflokkurinn, sem hefur beygt hinn í öllum þeim prinsippmálum sem sá flokkur stóð fyrir — má ég nefna Evrópusambandsmálið sem dæmi: Verið þið stillt, verið þið prúð, (Gripið fram í.) annars hafið þið verra af. Ef þið ætlið að vera áfram í ykkar hreinræktuðu vinstri stjórn skulið þið vera stillt og gera eins og við segjum vegna þess að annars eigið þið ykkur engrar viðreisnar von. Þarna þekki ég Samfylkinguna frá stjórnarsamstarfi okkar í tvö ár. (Gripið fram í.) Það var stöðugt þannig (Forseti hringir.) að Samfylkingin reyndi að breyta stefnu (Forseti hringir.) samstarfsflokksins í staðinn fyrir að líta í eigin barm. Kunnuglegt.