138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga höfum við rætt eitt mikilvægasta mál sem fyrir þetta þing hefur komið, jafnvel það mikilvægasta. Það er réttur stjórnarandstöðunnar að fá að tjá sig í þessu máli og það sem meira er, það er réttur stjórnarandstöðunnar að reyna að koma í veg fyrir þá ósvinnu sem hér er í gangi.

Þegar við munum líta yfir farinn veg, þegar afkomendur okkar munu skoða þetta mál, mun ég verða stoltur af því að hafa staðið hér í þessu ræðupúlti og talað gegn málinu. (Utanrrh.: Þú ert stoltur af öllu.) Ég er stoltur af flestu, hæstv. utanríkisráðherra, það er rétt. En þessu verð ég stoltastur af, að hafa reynt að stöðva þá ósvinnu sem hér er í gangi.