138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það vegna orða hæstv. utanríkisráðherra um að minni hlutinn á Alþingi sé með grímulaust ofbeldi, að það er spurning hvort eggið eða hænan kemur á undan í þessu máli. Í aðdraganda þessa máls sýndi stjórnarmeirihlutinn, meiri hlutinn á þingi, grímulaust ofbeldi og valdhroka þegar málið var tekið úr nefnd …

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn.)

Þá sýndi þessi ríkisstjórn og meiri hlutinn valdhroka. Það hefur leitt alla umræðuna vegna þess að hér hefur þurft að draga fram ýmsar þær staðreyndir og upplýsingar sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu átt að koma fram í nefndarstarfi um málið en þar var ekki gefinn tími til að fjalla um þetta mál. Þar var sýnt grímulaust ofbeldi að mínu mati sem hefur kallað á það að hér hefur þurft að fara í miklu ítarlegri umræðu en ella hefði þurft. Þess vegna hvet ég hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) og meiri hlutann til að taka þetta mál til baka til nefndar og vinna það betur og taka á dagskrá þau mál sem fyrir liggja og þurfa að koma til umfjöllunar.