138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ákaflega mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum dagskrá þingsins, sérstaklega í ljósi orða hæstv. utanríkisráðherra, að hér er ekki um að ræða mál sem mun losa um einhvern vanda og gera efnahagslega endurreisn auðveldari. Hér er um að ræða mál sem mun festa varanlega í sessi hindrun fyrir efnahagslegri endurreisn Íslands. Hér er um að ræða mál sem mun ár eftir ár, hugsanlega áratugum saman, verða til þess að íslenskar fjölskyldur þurfa að bera aukakostnað upp á 100 millj. kr. á dag sem þýðir að það þarf að skera niður annars staðar á hverjum einasta degi um 100 millj. kr. miðað við það sem ella hefði verið. Og það er ekki eins og þau mál sem ríkisstjórnin getur þó komið með hér inn hvenær sem hún vill ef hún væri tilbúin með þau, séu mál sem munu gagnast íslenskum almenningi eða íslenskum fyrirtækjum. Nei, þetta eru allt mikil ógæfumál, hræðilegir skattar, verstu hugsanlegu skattar fyrir þær aðstæður (Forseti hringir.) sem við erum í nú, breytingar á fæðingarorlofslögum. Hvað annað, frú forseti? Ekkert jákvætt (Forseti hringir.) bíður á hliðarlínunni.