138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra. Ég held að — hann hleypur alltaf úr salnum þegar ég tek til máls. Ég veit ekki hvað þetta er eiginlega. (Gripið fram í.) Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra í þeim efnum að ríkisstjórnin eða stjórnarliðar hafa sýnt okkur mikla tillitssemi sem hefur birst sérstaklega í því að þeir hafa gefið okkur fullkomið svigrúm til að komast á mælendaskrá, þeir hafa að minnsta kosti ekki verið að þvælast fyrir með því að taka sjálfir til máls í þessu máli. Kannski er það tillitssemi af þeirra hálfu en miklu líklegra er að þeir hafi ekki þorað að taka þátt í efnislegri umræðu um Icesave-málið, enda vita þeir að þetta er heldur vont mál.

Hins vegar komst formaður þingflokks Vinstri grænna mjög vel að orði áðan þegar hann talaði um félaga sína, að þar væri verið að reka trippin, og líkti þar með öðrum orðum stjórnarliðinu við einhvers konar hrossastóð.