138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja forseta að skoða hvort hægt sé að hliðra til dagskrá þannig að hin brýnu mál sem hér er rætt um komist á dagskrá. Ég vil jafnframt biðja forseta, því að hæstv. ráðherrar virðast ekki heyra í okkur, að hvetja þá til að setja sig á mælendaskrá, ekki síst félags- og tryggingamálaráðherra því að það væri sönn ánægja að fá að heyra efnislega afstöðu hans til þessa máls. Það vill svo skemmtilega til, hæstv. forseti, að hér eru þrír ráðherrar úr ríkisstjórn Samfylkingarinnar, þrír menn sem bera einna mesta ábyrgð á þessum Icesave-samningum sem við fjöllum um. Samfylkingin var með viðskiptaráðuneytið, frú forseti, hún var í Seðlabankanum og í Fjármálaeftirlitinu. (Utanrrh.: Og í iðnaðarráðuneytinu.) Og hugsið ykkur, hv. þingmenn og frú forseti, svo ráða þeir blygðunarlaust til sín aðstoðarmenn, eins og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, beint úr hrunadansinum sem gera svo kröfur um bætur til fallinna banka án þess að blikna. Og þetta styður ráðherrann.