138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst illa farið með vinnutímann á Alþingi þegar stjórnarandstaðan byrjar hvern einasta dag á að biðjast undan umræðu um Icesave-samningana. Hvern einasta dag byrjum við að ræða um hvort við getum ekki með nokkru móti fundið einhvern flöt á því að hætta við þessa umræðu sem allir eru þó búnir að biðja um. (Gripið fram í.) Menn hafa verið að ræða um þetta atriði undir fundarstjórn forseta, nánast ekkert annað, en biðjast svo undan umræðunni. (Gripið fram í.) Ég er með þrjár tillögur til forseta um fundarstjórn forseta. Það er í fyrsta lagi að byrja fyrr á morgnana þannig að umræðan geti hafist í síðasta lagi kl. 8–9 á morgnana í stað hádegis. (Gripið fram í: Það er fjölskylduvænna.) Í öðru lagi að excel-flokkarnir birti skjöl sín á heimasíðu Alþingis þar sem hægt er að ganga að ræðutíma þeirra og hverjir muni fara í andsvör og jafnvel um efnisinnihald væntanlegra ræðna á hverjum einasta morgni þegar þingmenn ganga til vinnu sinnar. Í þriðja lagi ætlast ég til þess að forseti taki alvarlega ásakanir hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um að stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) gangi rænandi og ruplandi um sali þingsins, þetta verði rannsakað og skoðað, eða að hv. þingmaður biðjist afsökunar á orðum sínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)