138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:01]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að steypa okkur í enn meiri skuldasúpu og það verður þjóðinni erfitt, segir hv. þingmaður, að reisa efnahagslífið við á enn meiri erlendum skuldum. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að núna 30. nóvember telja þessar þjóðir, Hollendingar og Bretar, sig geta, samkvæmt því samkomulagi sem gert var milli landanna, gjaldfellt alla þá upphæð sem ríkissjóður þessara landa greiddi út til innstæðueigenda í bönkum viðkomandi landa við hrunið? Það var hver einasti reikningur greiddur að fullu á sömu forsendum og við gerðum á neyðarlögunum, og nú telja þeir sig hafa fulla heimild til að gjaldfella þetta lán. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að gjaldfelling á allri upphæðinni, öllum innstæðunum skilyrðislaust geti valdið okkur enn meiri erfiðleikum? Og hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að með því að við reynum ekki að semja við þessar þjóðir og stöndum við skuldbindingar okkar geti það valdið okkur pólitískt miklum erfiðleikum? Það mundi hafa óendanlega mikil áhrif á möguleika okkar til frekari uppbyggingar hvað varðar lán og stuðning og allt sem fylgir því að standa einn í þessu alþjóðasamfélagi án þess að fá stuðning utan frá.