138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér er nefnd dagsetningin 30. nóvember, ein af mörgum dagsetningum sem nefndar hafa verið sem heimsendadagsetningar, þá gæti eitthvað ógurlegt gerst ef við yrðum ekki búin að klára að ganga frá þessum Icesave-samningum nákvæmlega eins og Bretar og Hollendingar vilja hafa þá. Nú hefur meira að segja hæstv. fjármálaráðherra viðurkennt að að sjálfsögðu sé 30. nóvember ekki áhyggjuefni, Bretar og Hollendingar muni ekki gjaldfella samninginn. Enda væri algerlega fráleitt fyrir þá að gera það því að með samningum sem undirritaðir voru fyrir hönd ríkisins en hafa þó ekki verið endanlega staðfestir fá Bretar allt sem þeir vilja. En það væri hins vegar það besta sem fyrir okkur gæti komið ef þeir mundu reyna að gjaldfella samninginn, að þeir segðu: Já, nú gjaldfellum við samninginn, nú þarf innstæðutryggingarsjóðurinn að borga. Hvað gerist þá, frú forseti? Þá er innstæðutryggingarsjóðurinn gjaldþrota, sem hann reyndar er, og hvað gerist í framhaldi af því? Þá þurfa Bretar og Hollendingar að leita réttar síns. Og hvar gera þeir það? Hérna úti í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ef menn hafa áhyggjur af því og eru jafnvel enn að velta því fyrir sér núna þegar Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru búin að staðfesta lánafyrirgreiðslu til okkar. En að hafa áhyggjur af því að við verðum ekki nógu vinsæl meðal einhverra erlendra ríkja ef við gerum ekki allt sem Bretar og Hollendingar fara fram á. Eru menn orðnir það litlir í sér að þeir hljóti að velta því fyrir sér hvort Íslendingar eigi yfir höfuð að vera sjálfstæð þjóð ef þeir eru ekki einu sinni tilbúnir til að standa á grundvallarlagalegum rétti sínum, ekki einu sinni tilbúnir til að halda honum fram af ótta við að einhverjir kunni að taka því illa? (Gripið fram í.) Við hljótum að vera tilbúnir til þess a.m.k. að halda því fram sem er lagalegur réttur okkar og trúa því nú að aðrar þjóðir séu ekki það illar að þær muni beita okkur einhvers konar refsiaðgerðum vegna þess eins að við reynum að standa á lögvörðum rétti okkar. Þetta er hræðsluáróður sem engin innstæða er fyrir, frú forseti.