138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er best að byrja á að víkja að því síðasta, lausnunum. Lausn málsins er að sjálfsögðu sú að Íslendingar verji lagalegan rétt sinn. Það er áhugavert að heyra hv. þingmann tala hér eins og hann telji að með þessum samningum sé eingöngu verið að uppfylla lagalega skyldu Íslendinga vegna þess að það gengur í berhögg við það sem ríkisstjórnin hefur haldið fram opinberlega, að hún sé að reyna að verja einhvers konar lagalegan rétt og að við göngumst ekki við því. (GuðbH: Lestu nefndarálitið.) Það segir ríkisstjórnin. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin segir að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þetta. Engu að síður koma upp ráðherrar og segja: Við verðum að gera þetta til að uppfylla skyldur. Það er ekki von að erlendir viðsemjendur taki mikið mark á málflutningi fólks sem talar þannig í kross við sjálft sig.

Hv. þingmaður sagði að við þyrftum að taka fyrirvarana inn í samninginn. Það birtist m.a. í þessum svokallaða lagalega fyrirvara þar sem nú kemur fram að Íslendingar telji sig ekki vera lagalega skuldbundna til að greiða þessa reikninga en þeir ætli samt að gera það. Hvernig í ósköpunum er hægt að telja að það sé Íslendingum í hag að þetta komi fram? Við viðurkennum það að við ætlum að borga þetta þrátt fyrir að við teljum okkur ekki lagalega skuldbundin til þess og getum þá væntanlega ekki sagt í framtíðinni að við höfum ekki verið skuldbundin og að við höfum þess vegna ekki átt að greiða.

Hv. þingmaður virtist efast um að margir séu búnir að benda á áhrif gengisins og skort á erlendri mynt til að standa undir þessu. Ég bendi hv. þingmanni á að fletta upp í blaðasöfnum, í þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um þetta mál. En hins vegar kannast ég ekki við að margir hafi komið til fjárlaganefndar nema þá helst menn á vegum Seðlabankans sem voru augljóslega ekki í aðstöðu til annars en halda því fram að menn gætu staðið undir þessu. Það er hlutverk Seðlabanka að sýna fram á að ríki geti staðið undir skuldum sínum (Gripið fram í.) enda hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gagnrýnt skýrslu Seðlabankans töluvert.