138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var fróðleg upprifjun og yfirferð hjá hv. þingmanni um það hvaða umbúnaður þarf að vera fyrir hendi til þess að íslenskur banki geti opnað útibú í Hollandi og Bretlandi. Ég er samt ekki alls kostar sáttur við röksemdafærsluna hjá hv. þingmanni en látum það vera. En vantaði ekki eitt í þessa upptalningu? Vantaði ekki að það þarf líka sérstaka heimild íslensks ráðherra til þess að bankinn geti opnað útibúið og þessa netreikninga? Ef svo er hvaða ráðherrar voru það sem gáfu það starfsleyfi?

Í annan stað: Hv. þingmaður heldur því fram að það hafi ekki verið fær sú leið hér heima af hálfu Fjármálaeftirlitsins að hafna leyfi til starfrækslu þessara útibúa vegna þess að það jafngilti því að svipta móðurfélag starfsleyfi. Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju var sú leið ekki fær?

Í þriðja lagi: Ef hollenska fjármálaeftirlitið hefði staðið undir því sem hv. þingmaður telur að því er ég best skildi vera skyldu þess, að leyfa ekki starfræksluna í Hollandi, hvernig hefði þá fjármálaeftirlitið hér á Íslandi átt að bregðast við?