138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hér er búið að spá ísöld, frostavetri og slíku og fór hæstv. forsætisráðherra mikinn í því. Hún man kannski hvernig var umhorfs á þeim tíma en ekki veit ég hvernig frostaveturinn var. En mig langar að velta því upp við hv. þingmann að það lítur stundum út á Alþingi eins og hér hafi ekki verið nein ríkisstjórn fyrir rúmu ári síðan, að hér hafi ekki verið tveir flokkar í ríkisstjórn heldur eingöngu einn flokkur við völd. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann sem þingmann Sjálfstæðisflokksins hvort Sjálfstæðisflokkurinn kannist við að hafa verið í ríkisstjórn á þeim tíma þegar allt fór niður á við, þegar hrunið varð, og hvort sá flokkur hafi verið einn við stjórnvölinn. Auðvitað ber ríkisstjórn þess tíma mikla ábyrgð og ég held að það sé rangt þegar reynt er að hlaupa frá henni líkt og mér finnst þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar reyna að gera. Ég held að það sé mikilvægt að spyrja hv. þingmann hvort hún telur að frá því að hrunið varð, frá því að þau stjórnvöld sem þá voru tóku ýmsar ákvarðanir sem eru mjög umdeilanlegar, svo vægt sé til orða tekið, hafi þetta mál breyst með einhverjum hætti, hvort Icesave-málið sé sama mál og það var fyrir rúmu ári síðan. Hér hafa þau orð verið látin falla að svo sé, menn hafa verið að vitna aftur í tímann í ákvarðanir og eitthvað sem sagt hefur verið.