138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar. Það er ekki skrýtið að menn velti því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið einn í stjórn frá miðju ári 2007 til 1. febrúar 2008. Nei, það var víst þannig að það voru tveir flokkar við stjórn. Ég get tekið undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem lýsti hreinlega eftir þeim ráðherrum sem sátu með honum við ríkisstjórnarborðið af því að hann kannaðist við fullt af fólki í salnum sem hafði verið með honum á fullt af fundum en enginn kannast neitt við neitt núna.

Að sjálfsögðu er ábyrgð Samfylkingarinnar mikil í þessu máli líkt og ábyrgð okkar hinna. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að vera við völd í 18 ár og bankakerfið hrundi á okkar vakt. Það er ömurlegt, ég get alveg sagt það, og við berum okkar ábyrgð í því. En það eru fleiri sem bera ábyrgðina og mér var kennt strax í æsku að maður á ekki að skjóta sér undan ábyrgð, eins og mér finnst Samfylkingin vera að gera. Þeir skjóta sér svo mikið undan ábyrgð að þeir meina meira að segja formanni sínum frá þessum tíma að koma fyrir fjárlaganefndina þó að óskað hafi verið eftir því. Það er ekki eins og það hafi verið óskað eftir því út í bláinn heldur tjáði sá ágæti fyrrverandi stjórnmálamaður sig um þessi mál og var það mjög athyglisvert sem hún sagði. Það lá því beint við að fá hana á fund nefndarinnar, en nei, þeir voru víst búnir að gleyma henni líka og það mátti ekki kalla hana fyrir fundinn.

En varðandi hvort þetta sé sama Icesave-málið núna eða ekki verður að bíða seinna andsvars míns.