138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt andsvar og ég tek heils hugar undir með henni að þessi umræða verður að fara fram þjóðfélagsins vegna þangað til við fáum skýringar á því hver hefur rétt fyrir sér og hver er að segja ósatt varðandi þær hótanir sem fjármálaráðherra fullyrðir að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi beitt Íslendinga. Þarna ber mönnum ekki saman og ég hef velt fyrir mér hvernig stendur á því að fjármálaráðherra þorir að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar hann heldur því fram að þeir aðilar sem þar starfa séu beinlínis að segja ósatt. Hvernig getur staðið á því að hann heldur áfram samstarfi við þessa aðila? Það er spurning sem ég tel að sé mjög brýnt að við fáum svör við í umræðunni.

Mér fannst ágætt þegar hv. þingmaður benti á að lánshæfismatið er ekki alveg eins alvarlegt og hæstv. ráðherra vill vera láta vegna þess að því skuldsettari sem þjóðin er, þeim mun verra er lánshæfismatið. Það er alveg sama hvort um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða þjóðir. Því meira sem hver aðili skuldar, þeim mun verra verður lánshæfismatið. Fólk getur bara reynt það á sjálfu sér, ef það er stórskuldugt á það ekki greiðan aðgang að lánum og það batnar ekki ef fólk skuldsetur sig meira. Hverjum dytti í hug að fara til bankastjórans síns og segja: Ja, þú vildir ekki veita mér lán um daginn en ég ætla að skuldsetja mig (Forseti hringir.) um 800 milljarða. Viltu þá ekki lána mér? Nei, það gengur ekki upp, virðulegi forseti.