138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera að umtalsefni innstæðutryggingarkerfi sem við búum við samkvæmt Evrópurétti, það tryggingakerfi sem menn hafa sett á til þess að bjóða innstæðueigendum tryggingu á þeim fjármunum, eða hluta þeirra, sem lagðir hafa verið inn í bankastofnanir. Í sjálfu sér má flytja langt mál um sögu slíkra ákvæða og sýnist sitt hverjum um nauðsyn þeirra og/eða gagnsemi. Niðurstaðan hefur verið að hafa kerfið með þeim hætti að boðið væri upp á slíka tryggingu vegna þess að menn hafa jú sammælst um að bankastarfsemi sé slík grundvallarstarfsemi í þróuðum iðnaðar- og verslunarsamfélögum að það skipti máli að sem flestir treysti því að þeir geti lagt peninga inn í banka og fengið þá til baka með eðlilegum vöxtum, að bankarnir geti síðan fært það fé til arðbærrar atvinnusköpunar, verkefna og framkvæmda og þannig fært allt hagkerfið áfram og búið til hagvöxt og velmegun sem allir njóta góðs af.

Uppi er vandi sem snýr að innstæðutryggingarkerfinu og felst í því að ef menn geta gengið að því vísu að hið opinbera tryggi innstæður þeirra og það sé öruggt að þótt bankastofnun fari á hausinn fái menn greidda í það minnsta þá lágmarkstryggingu sem ríkið býður upp á, og/eða að menn hafi verið skynsamir og dreift fé sínu á marga reikninga sem hver fyrir sig er tryggður þannig að hvergi standi út af nein upphæð sem er ótryggð af hálfu hins opinbera, getur það gerst að fjármálastofnanir byrji að keppa sín á milli fyrst og fremst í því hver býður hæstu vextina á slíka innlánsreikninga. Hin eðlilega samkeppni á að vera samkeppni annars vegar um að bjóða góða vexti og hins vegar öryggi. Það er þetta tvennt sem sá sem leggur fé sitt og fjármuni í banka á að horfa á, öryggi og ávöxtun. Ef hið opinbera er búið að veita þetta öryggi snýst samkeppni fjármálastofnana fyrst og síðast um keppni um það hver býður hæstu vextina. Eftir því sem menn bjóða hærri vexti, því meiri áhætta verður í útlánastarfseminni af því það er samhengi á milli vaxtastigs og áhættustigs. Því meiri áhætta, því hærri vextir.

Frú forseti. Þetta er rétt að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur innstæðutryggingarkerfi því sem við Íslendingar ræðum nú. Ég er nokkuð sannfærður um að það eru þvílíkir gallar í þessari löggjöf að augljóst er að í það minnsta var aldrei hugsað til þess að hér gæti orðið fullkomið og algjört bankahrun og að það kerfi sem við bjuggum til ætti að geta gripið utan um það. Jafnvel má halda því fram að það kerfi sem þó er við lýði hafi innbyggðan hvata til að ýta undir ákveðnar líkur á hruni. Þó vil ég taka fram að menn hafa fært sterk söguleg rök fyrir því að hafa slíkt kerfi en menn verða auðvitað að velta fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að ríkið veiti þvílíka almenna ábyrgð eins og hér er um að ræða.

Jafnframt hef ég bent á það í ræðu hér að ef það er þannig og hefur verið þannig hugsað að ríkisábyrgð hafi verið að baki þessum innstæðum er augljóst að það frelsi á fjármálamarkaði sem hinn innri opni markaður Evrópu á að tryggja virkar ekki sem skyldi. Hvernig má það vera, frú forseti? Jú, úr því að um er að ræða ríkisábyrgð á innstæðunum hlýtur sá sem ætlar að leggja peninga inn í banka, þegar hann velur á milli tveggja banka til að leggja fé sitt inn í á hinum samevrópska opna markaði, ef viðkomandi einstaklingur er skynsamur og reglurnar miðast við að fólk hagi sér skynsamlega, að velja þann banka sem kemur frá ríki sem er líklegra til þess að geta staðið undir tryggingunni. Það er að ríkissjóður viðkomandi lands sé það stór að hægt sé að tryggja að innstæðan verði greidd út, komi til þess að fjármálastofnunin fari á hausinn. Með öðrum orðum, eftir því sem bankarnir koma frá stærri ríkjum því líklegra má teljast að öllu jöfnu að viðkomandi ríkissjóður geti staðið að baki ákveðinni lágmarkstryggingu.

Nú geta menn og hv. þingmenn velt fyrir sér, hvað ef þetta Icesave-mál hefði komið upp eftir nokkur ár, eftir að reikningarnir hefðu haldið áfram að bólgna út í þrjú, fjögur ár, farið inn í enn fleiri Evrópulönd og við værum ekki bara að tala um Holland og Bretland heldur einnig Frakkland, Belgíu, Lúxemborg, Ítalíu, Spán, Portúgal og fleiri lönd? Ef við sjáum fyrir okkur að það væri búið að opna reikninga í öllum þessum löndum og ábyrgðin jafnvel orðin margfalt stærri en raun ber vitni, hvernig hefði ESB t.d. horft á það mál? Hefðu menn virkilega verið þeirrar skoðunar að regluverkið væri þannig að algjörlega óháð því hversu risastór ábyrgð væri komin þarna teldu menn að Ísland yrði að standa í skilum og greiða slíka skuld? Við skulum segja að skuldin væri tíu sinnum stærri en landsframleiðslan. Ég bendi á, frú forseti, að þær stærðir sem við erum að tala um á alþjóðafjármálamörkuðum eru þannig að slíkt væri mögulegt.

Þess vegna hljótum við Íslendingar að horfa til þess hvort Evrópuþjóðirnar muni ekki breyta þessu fyrirkomulagi, þessu innlánstryggingarkerfi. Við höfum jú heyrt af því að umræður séu um það innan vébanda ESB að það þurfi að breyta þessu. Jafnframt hafa komið fram skoðanir manna eins og fjármálaráðherra Hollands sem hefur sagt að þetta kerfi hafi augljóslega ekki verið hannað fyrir svona kerfishrun. Það sé hannað til þess að taka á því þegar einstaka bankar hrynja. Þess vegna, frú forseti, segjum við Íslendingar þó í því frumvarpi sem hér er til umræðu að við viðurkennum ekki að okkur beri skylda til þess að greiða þessa upphæð. Það held ég að sé eina málsgreinin í frumvarpinu sem ég get sagt að ég sé fyllilega ánægður með. Af hverju segjum við að við viðurkennum það ekki? Jú, vegna þess að það eru að okkar mati ekki lagaleg rök og þaðan af síður efnahagsleg fyrir því að okkur beri að bæta þetta og bera þessar byrðar. Það er lykilatriði í málinu.

Um leið og við höfum sagt að við eigum ekki að bera þetta, að við sættum okkur ekki við það og teljum að það sé ekki að lögum, hljótum við líka að spyrja, frú forseti: Ef það er svo skýrt í Evrópuréttinum að mati okkar viðsemjenda að það sé ríkisábyrgð á þessu, hvers vegna í ósköpunum þarf þessi lög sem hér er verið að ræða um? Hvers vegna þarf að setja lög um ríkisábyrgð alveg sérstaklega? Var hún ekki virk og gild og átti hún ekki bara að koma til sjálfvirkt?

Af því við höfum sagt sem svo að við berum ekki ábyrgðina og eigum ekki að gera það er augljóst að við erum að gera það vegna þess að við erum beitt einhvers konar ofbeldi. Það eru aðrar þjóðir, margfalt stærri og öflugri, sem segja við okkur Íslendinga: Við vitum að þið eruð þeirrar skoðunar að þið eigið ekki að greiða þetta en við ætlum ekki að leyfa ykkur að leita réttar ykkar hjá dómstólum og heimila ykkur að fá þar úr því leyst hvaða ábyrgðir þið berið og hvaða skuldbindingar þið hafið gengist undir. Þið skuluð gera þetta vegna þess að annars hafið þið verra af. Enn á ný, frú forseti, hlýtur að koma upp sú hugsun hjá hv. þingmönnum hvort með þessu sé ekki verið að ráðast á fullveldi þjóðarinnar. Ef við erum neydd með valdi til að greiða upphæðir til annars ríkis þrátt fyrir að við höfum sagt að við eigum ekki að greiða þetta og okkur beri það ekki lögum samkvæmt er ekki um annað að ræða en að það er verið að leggja skatt á okkur Íslendinga. Það er verið að segja: Skattgreiðslur tugþúsunda Íslendinga í ákveðinn árafjölda eiga að renna til annars ríkis án þess að fyrir því séu lagalegar forsendur og án þess að við Íslendingar höfum nokkurn tímann gengist undir að okkur bæri samkvæmt lögum að gera slíkt. Það, frú forseti, tel ég að hljóti í það minnsta að flokkast undir (Forseti hringir.) að við þurfum að hafa áhyggjur af því hvort fullveldi okkar hafi þar með verið stefnt í voða.