138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vildi ég nefna vegna orða hv. þingmanns um EES-samstarfið, Noreg og þá var auðvitað óumflýjanlegt að talið bærist að jólatrjám, að ég get vel skilið Samtök iðnaðarins. Ég get ekki ímyndað mér að menn kaupi samevrópskt jólatré til að hafa í stofunni hjá sér og auðvitað vona ég að eftirlitsyfirvöld á Íslandi leyfi þeim sem höndla með jólatré að vekja athygli á því að þetta séu íslensk jólatré. Ég held að það hljóti nú að vera í lagi.

Hinn þáttur málsins er auðvitað miklu alvarlegri en það er einmitt þetta sem hv. þingmaður benti á, tilraunir ESB til þess að bæta sitt regluverk og takast á við þann vanda sem varð svo augljós með bankahruninu hér á Íslandi en var auðvitað yfirvofandi í Bretlandi og annars staðar. Við höfum fengið heimildir um að það hafi legið mjög nærri við að breska fjármálakerfið hefði hrunið til grunna, það hafi jafnvel verið klukkustunda spursmál að mjög illa hefði farið og þá hefði reynt á allar þessar innstæður þar. Þar af leiðandi má ætla að það muni verða einhvers konar breytingar hérna á næstu árum og menn reyni að koma þessu í einhvern farveg.

Þess vegna er það svo hörmulegt fyrir okkur Íslendinga að í því frumvarpi sem hér er til umræðu skuli það vera þannig að ef það kemur upp dómsmál um þetta, af því að það getur vel reynt á þetta hjá einhverjum öðrum sem kannski eru harðari af sér en við Íslendingar í þessu máli, og ef kemur í ljós að við höfum haft rétt fyrir okkur að það eina sem við fáum þá út úr því verði að við eigum rétt á því að kalla saman fund. Það er auðvitað ekki nægjanlegt. Einmitt hvað varðar afturvirkni og annað slíkt — ég verð að játa að ég þekki ekki til smáatriða í því máli og vil ekki (Forseti hringir.) tjá mig um of um það en segi bara að allt ber þetta merki þess að þetta (Forseti hringir.) kerfi allt saman hafi verið gallað.