138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hér hafi þingmanninum hv. mælst mjög vel og þarna hafa verið borin fram mjög skýr rök. Ég verð að játa að það hefði verið áhugavert að heyra sjónarmið stjórnarliða, af því að hér sé ég hæstv. samgönguráðherra vera kominn í salinn. Það hefði verið spennandi að heyra frá hæstv. samgönguráðherra skoðun hans akkúrat á því máli sem hér var rætt, þ.e. afturvirkni þessara hluta og hvernig innstæðutryggingarkerfi er uppbyggt í Evrópu. Hvort það hafi í raun verið svo að samkvæmt lögum beri okkur að gera þetta eða hvort það sé þannig, eins og við Íslendingar lítum á með því sem sagt er í 2. gr. frumvarpsins, að okkur beri engin skylda til þess að greiða þetta. Það er það sem þetta frumvarp leggur upp með og er grundvallaratriði í frumvarpinu. Þá stendur bara eitt eftir; við erum beitt ofbeldi af öðrum þjóðum til þess að greiða þetta.

Nú höfum við sjálfstæðismenn lagt upp með að það ætti að leita að pólitískri lausn í málinu og sagt: Það er nauðsynlegt að það komi einhvers konar lausn við svona aðstæður en hún verður að vera sanngjörn, hún verður að vera pólitísk, hún verður að dreifa byrðunum en hún getur ekki og má ekki, frú forseti, vera þannig að eftir standi bara að við séum stödd með málið eins og við höfum farið með það í dóm og tapað því. Það er óásættanlegt við þetta allt saman.

Auðvitað væri til bóta fyrir umræðuna ef við værum alveg viss um að allir hæstv. ráðherrar sem bera ábyrgð á þessu — þótt auðvitað beri sumir hæstv. ráðherrar meiri ábyrgð en aðrir — skiptir auðvitað máli að það sé tryggt að hæstv. ráðherrar hafi kynnt sér þetta mál mjög vel og eins og allir aðrir hv. þingmenn, því hæstv. ráðherrar munu greiða atkvæði um þetta eins og við hin. Ég verð að segja eins og er að mér hefur stundum fundist þær athugasemdir sem hér hafa fallið úr ræðustól frá hæstv. ráðherrum til þess fallnar að maður vænti þess að (Forseti hringir.) við þurfum lengri umræðu til að tryggja að það sé fullur skilningur (Forseti hringir.) á þessu máli, m.a. á meðal hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Rétt.)