138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma inn í eina ræðu, svo að fólk geti prentað hana út og lesið í samfellu, þróun friðhelgisákvæðisins í Icesave-samningunum. Ég tel nefnilega að friðhelgisréttindunum sé kastað fyrir róða í hinu nýja frumvarpi.

Frú forseti. Það verður nokkuð mikið um tilvitnanir því að ég les upp úr þremur skjölum, í fyrsta lagi fyrsta frumvarpinu sem kom hér inn á borð til okkar, svo lögunum sem voru samþykkt í ágúst, 28. ágúst, og svo nýja frumvarpinu.

Þá ætla ég að benda á að í breska samningnum, í lið 17.2 Lögsaga, kemur fram að ágreiningsefni skuli einungis lúta lögsögu enskra dómstóla. Þarna kemur þetta í fyrsta sinn inn í þennan Icesave-samning og þetta ákvæði stendur. Vil ég biðja hlustendur og þingmenn að hafa það í huga í gegnum allt mitt mál hér sem nú hefst.

Í 18. gr. í Icesave-samningunum, Fallið frá friðhelgisréttindunum, segir, með leyfi forseta:

„Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið fallast, hvort um sig, almennt á að þeim sé birt hvers konar stefna í tengslum við ágreining sem upp kann að koma og að sjá fyrir hvers konar lausnum og úrræðum í því tilliti, þar með talið með aðför eða fullnustu í hvaða eignum sem er (óháð notum þeirra eða ætluðum notum) samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi. Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda, íslenska ríkið eða eignir þeirra eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi, í hvaða lögsögu sem er, gagnvart birtingu stefnu eða annarra gagna sem varða hvers konar ágreining, eða eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi gagnvart lögsögu, málshöfðun, dómi, fullnustu, fjárnámi (hvort heldur er fyrir dómi, við framkvæmd fullnustu eða á annan hátt) eða öðrum lögfræðilegum úrræðum, er hér með fallið frá þeim rétti með óafturkræfum hætti, að því marki sem heimilt er samkvæmt lögum viðkomandi lögsögu. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið fallast, hvort um sig, einnig með óafturkræfum hætti á að beita ekki slíkri friðhelgi fyrir sig eða eignir sínar.“

Svona kom þetta fyrst inn í upphaflega Icesave-samningnum og var ég óhrædd við að benda á það hvað þessi lagagrein þýddi en samninganefndin og framkvæmdarvaldið var ekki búið að gera sér grein fyrir því með hvaða hætti þetta var, að falla frá friðhelgisréttindum, sem er grafalvarlegt mál, því þar með erum við ekki lengur ríki meðal ríkja, þjóð meðal þjóða, og hægt væri að taka allsherjarveð í eignum okkar, enda gengur Icesave-málið út á það.

Í framhaldi af þessu kom hæstv. fjárlaganefnd inn í frumvarp það sem varð að lögum 22. ágúst því ákvæði að forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar samkvæmt lögunum væru, eins og segir í lið 2.2, með leyfi forseta:

„að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti. Sama á við um eignir íslenska ríkisins erlendis, þar á meðal eignir Seðlabanka Íslands, sem njóta verndar samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar“ — Í 3. tölulið segir: „að hvergi sé haggað óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins og rétti handhafa íslenska ríkisvaldsins til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.“

Þarna var sett inn í frumvarpið viðurkenning á því að það var búið að afsala friðhelgisréttindunum alveg í upphaflegu samningunum. Ég talaði um það í sumar að þetta væru algjörir nauðasamningar sem kom á daginn og hefur ákveðið orð verið notað, sem byrjar á L, en það má víst ekki nota það í þingsal því að það fer svo mikið fyrir brjóstið á ríkisstjórninni.

Þarna kom þetta svona út og eins og við munum var í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem varð að lögum 28. ágúst það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að kynna þessi lög fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum og þau mundu taka þau til skoðunar og annaðhvort að fallast á þau eða synja. Við vitum framhaldið, þeir gerðu hvorugt, féllust hvorki á lögin né synjuðu þeim. Þeir gerðu gagntilboð í lögin og framkvæmdarvaldið kom hér heim með það og það er hér til umræðu.

Þá komum við að því frumvarpi sem nú er til staðar sem mér hefur orðið tíðrætt um í þessari umræðu. Í gr. 3.3.3 í frumvarpinu á bls. 23, sambærilegt ákvæði er í hollenska samningnum, segir, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar staðfesta að þótt fallið sé frá friðhelgisréttindum í 18. mgr. (Fallið frá friðhelgisréttindum) í breytta lánssamningnum nái það ekki til þeirra eigna íslenska ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum, eigna íslenska ríkisins á Íslandi sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki eða eigna Seðlabanka Íslands.

Í grein 3.3.4 segir jafnframt:

„Samningsaðilar staðfesta að ekkert í upprunalega lánssamningnum eða breytta lánssamningnum sé til þess fallið að svipta Ísland yfirráðum eða hafi þau áhrif að svipta Ísland yfirráðum yfir náttúruauðlindum sínum eða rétti sínum til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.“

Þarna skulum við staldra við því eins og ég sagði í upphafi máls míns að um samningana gilda bresk lög og breskir dómstólar dæma í ágreiningsmálum sem upp koma. Þótt samningsaðili staðfesti það sem stendur í samningnum ætla ég í fyrsta lagi að minna á það að íslenska ríkið er ekki aðili að samningnum því að búið er að framselja þau réttindi til innstæðutryggingarsjóðsins sem er gjaldþrota nú, versus Bretar og Hollendingar. Þó að þessir samningsaðilar staðfesti þennan sameiginlega skilning gildir það ekki fyrir dómstólum því að það sem stendur í samningi — og komi ágreiningur um samningstexta, eru það dómstólar sem skera úr um það og ekkert annað. Þarna finnst mér vera þetta gat komið inn aftur enda ganga Icesave-samningarnir út á það, frú forseti, að ná allsherjarveði í eigum Íslendinga.

Ég ætla að taka sem dæmi að í frumvarpinu er langtum meira afgerandi setning sem kemur til með að standa sem sjálfstæð setning fyrir dómstólum. Í 2. gr., Lagaleg staða, stendur skýrum stöfum: „Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu“ ... o.s.frv. — ekkert í lögum þessum. Þarna hafa dómstólar mjög mikið túlkunarákvæði. Þegar sagt er „ekkert í lögum þessum“ þýðir það að það er það sem stendur í lögunum sem gildir og ekkert annað. En samningsaðilar staðfesta, málið er opið og það eru dómstólar sem bíða eftir því að komast í þessi lög, verði þetta að lögum, og fella þetta að sjálfsögðu úr gildi.

Í gr. 2.1.3 á bls. 22 í frumvarpinu sem nú er til umfjöllunar — ég minni á það að þetta frumvarp hér er viðaukasamningur við Icesave-samninginn og því fellur viðaukasamningur alveg inn í samninginn eins og hann liggur fyrir. Í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið mun: (a) strax og raunhæft reynist eftir dagsetningu þessa samnings leggja fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið fái heimild, án skilyrða og fyrirvara, til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánssamningi og um hverja þá heimild aðra sem þarf til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum séu lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar …“ — og fullnustuhæfar.

Þarna erum við komin með ákvæði sem gefur Bretum og Hollendingum tækifæri til þess að sækja þennan friðhelgisrétt á okkur. Ég hef spurt hér í umræðunum hvað sé átt við með þessari lagagrein, að skuldbindingarnar séu lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar. Að fullnusta kröfu er það að einhvers konar veð sé á bak við þá kröfu sem lánið gengur út á. Okkur er talin trú um það að hér sé allt varið, hvort sem það séu náttúruauðlindir, eignir Seðlabankans erlendis eða hvað sem það er. Svo er ekki.

Svo er verið að gagnrýna málþóf. Hér hef ég verið að reyna að benda á þetta. Framkvæmdarvaldið lítur ekki við þessu. Hér er verið að afsala aftur á ný þessum réttindum með þessu nýja frumvarpi. Ég segi ekki annað en það: Er ekki þessi samninganefnd örugglega með lögfræðimenntað fólk með sér þarna úti? Og eru ekki einhverjir lögfræðingar sem lesa þetta yfir fyrir framkvæmdarvaldið?

Það er verið að taka þessi réttindi af okkur hér í þessum samningi. Og þetta er svo alvarlegt. Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra tvisvar að því hvað þetta þýði, að vera lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar, og hann hefur ekki svarað mér. Mér skilst að aðstoðarmaður hans sé lögfræðimenntaður. Hann ætti að geta leitað í smiðju hans en því miður situr sá aðstoðarmaður í samninganefnd sem hefur í tvígang komið heim með samninga sem afsala okkur þessum friðhelgisréttindum.

Ég minni á það og bið þingmenn að kíkja á það, þetta er efst á blaðsíðu 22, og sambærilegt ákvæði er í hollenska samningnum. Það stendur hér í línu 2 „án skilyrða og fyrirvara“, þarna er þetta tekið, þarna eru fyrirvarar teknir af.

Ég bið þingmenn um að lesa þetta vel, (Forseti hringir.) þeir geta prentað út ræðuna mína svo að þetta komi hér í samhengi og landsmenn líka.