138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa spurningu. Við skulum taka þetta í réttri röð. 28. ágúst samþykkti Alþingi lög með þeim fyrirvörum að þetta væru skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni. Forseti skrifar undir þau 2. september. Skilyrði fyrir veitingu þessarar ríkisábyrgðar eins og þingmaðurinn benti á var að þeir mundu annaðhvort fallast á þessi lög eða ekki. Þannig stendur málið. Það eru í gildi lög í landinu, við megum aldrei gleyma því, og það eru lögin frá því í sumar. Við höfum löggjafarvald hér — enn þá.

Þingmaðurinn bendir á að komin eru fram nokkurs konar samningstilboð frá Bretum og Hollendingum sem þeir eru búnir að skrifa undir ásamt íslenska framkvæmdarvaldinu. Það gengur út á að búið sé að smíða nýtt frumvarp sem liggur fyrir þinginu og er til umfjöllunar og þá má alveg líta þannig á að Bretar og Hollendingar séu þar með búnir að hafna fyrirvörum í þessum lögum. Um leið og þeir eru búnir að skrifa undir að kominn sé nýr samningur — við skulum bara kalla nýja frumvarpið samning, þetta er ekkert annað en samningur við lögin. Framkvæmdarvaldið er búið að undirrita hann. Framkvæmdarvaldið heldur á pennanum þó að fjárveitingavaldið sé í þingsal. Það er ekkert annað en samningur þar til ríkisábyrgðin er komin á. Það væri gaman að vera dómari í þessari deilu kæmi hún fyrir dómstóla því að raunverulega eru Bretar og Hollendingar vissulega búnir að hafna lögunum. Undirritun þeirra undir hið nýja tilboð sem er frumvarp sýnir að þeir eru búnir að hafna þessum lögum og þeim fyrirvörum sem settir voru hér. Svo einfalt er málið.