138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisvert og ein hlið á málinu. Spurningin er hvað gerist ef Bretar og Hollendingar sjá sitt óvænna vegna þess að þeir eru að missa málið út úr höndunum. Ef þessi lög núna verða ekki samþykkt eða ef það dregst lengi og við þurfum að semja aftur við Breta og Hollendinga gætu þeir lent í þeirri stöðu að þurfa að semja um miklu verri kjör en fyrirvararnir í sumar gáfu þeim þó. Þá er það spurningin: Dugar að senda til Íslands formlegt bréf um að þeir fallist á fyrirvarana? Ég minni á að þeir sendu eitthvert fyrirbæri sem hét „non-letter, one shot“, eitthvert bréf sem ekki var bréf til þess einmitt að eyðileggja ekki möguleikann á að geta fallist á lögin. Ég hef grun um að þeir sjái flöt á því að geta hvenær sem er fallist á fyrirvarana frá því í sumar og þar með náð sínu fram.