138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur enn á ný fyrir. Við skulum aldrei gleyma því að Ísland er lýðræðisríki með þingbundinni stjórn, það er okkar grunneining, og í 2. gr. stjórnarskrárinnar er komið inn á þrígreiningu ríkisvaldsins. Það sem gerist hér er að framkvæmdarvaldið leyfir sér að binda hendur löggjafans með undirskrift þessa samnings en eins og margoft hefur komið fram má ekki breyta neinu í þessu frumvarpi og þá er framkvæmdarvaldið búið að binda hendur löggjafans. Ég minni á að þingræðisreglan gengur út á það að framkvæmdarvaldið sækir sér vald til löggjafans til að starfa en ekki öfugt, framkvæmdarvaldið sækir sér vald hingað út í sal til að starfa en ekki öfugt. Þessi ríkisstjórn er vanhæf, frú forseti, og eins og ég sagði í gær hafa ráðherrar sagt af sér af minna tilefni en því sem nú liggur fyrir Alþingi.