138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er klárlega hluti af því að þessi umræða er eins og hún er nú í þingsalnum að málið var ekki fullrætt í þeirri nefnd sem átti að fjalla um málið og eins vegna þess að efnahags- og skattanefnd skilaði í það minnsta held ég fjórum álitum af þeim hluta sem að þeim sneri. Það er því ljóst að það eru margir kantar á þessu máli sem þarf að skoða betur.

Einnig er það nú þannig, virðulegi forseti, að frá því að nefndin tók málið út hafa komið upp aðrir fletir, t.d. stjórnarskrárumræðan, stjórnarskrárflöturinn. Það er atriði sem kemur fram með sterkum hætti bæði hjá Sigurði Líndal og Ragnari Hall, ef ég man þetta rétt, eftir að nefndin er búin að taka málið út hjá sér. Eftir það er nefndin að vísu búin að koma saman á málamyndafund, vil ég kalla það, til þess að fara yfir þetta stjórnarskrármál en ekkert skriflegt hefur komið út úr því.

Mitt mat er það að hlutverk nefndar sé m.a. að fjalla efnislega um málið innan þingsins til þess að efnisleg umræða fari markvissar fram í þingsalnum því að þar eru málin vitanlega kláruð og þar hafa þingmenn tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og skrá í þingbækur. Það er mjög slæmt þegar umræðan er drifin áfram með þeim hætti að hún er ekki kláruð í nefndinni og með því er í raun verið, já, hv. þingmaður, að vísa efnislegri umræðu inn í þingsalinn og það er eitt af vandamálunum við þetta mál og eitt af því sem við glímum við í dag.