138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni að hann væri fjölskyldumaður og hefði áhyggjur af fjölskyldu sinni í framtíðinni því hér væri hugsanlega verið að leggja skuldaklafa á herðar Íslendinga í framtíðinni sem þeir gætu ekki staðið undir efnahagslega. Í ræðu hv. þm. Þórs Saaris fyrir tveimur dögum kom í ljós að til þess að standa skil á greiðslu bara vegna vaxta Icesave-skuldarinnar, sem nemur hundrað milljónum á dag, þurfi 80 þúsund skattgreiðendur, tekjuskatt frá 80 þúsund skattgreiðendum, sem er hátt í að vera upp undir helmingur af skattgreiðslum Íslendinga. Þar sem ég veit að hv. þingmaður er reyndur sveitarstjórnarmaður spyr ég: Hvernig mundi honum hugnast ef hann væri að gera fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélagið og búið væri að ráðstafa helmingnum að tekjuskatti íbúanna í einhverjar aðrar aðgerðir en að standa undir rekstri og þeim skyldum sem á sveitarfélögunum hvíla? Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Eru menn hér hugsanlega að offra efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar?

Burt séð líka frá því, eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu og vitnaði þar til Ragnars Halldórs Halls þar sem Ragnar H. Hall einmitt benti á þetta, að þarna væri verið að taka gífurlega áhættu og það væri búið að taka efnahagslegu fyrirvarana úr sambandi. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þá skoðun mína að menn séu í raun og veru að taka þarna algjörlega áhættu. Líka vegna þess að einmitt í greininni sem hv. þingmaður vitnaði í kemur mjög skýrt fram að það veit enginn hver skuldbindingin er. Við vitum ekki hvaða upphæð er um að ræða og við vitum ekki hver skuldbindingin er í árum vegna þess að nú er búið að taka sólarlagsákvæðið úr sambandi. Það er líka svo mörgu ósvarað í þessu, það er gengisáhætta og margt, margt fleira, t.d. spurning um hvað kemur út úr þrotabúi Landsbankans. Hvað finnst hv. þingmanni um að gera þetta eftir að búið er að taka efnahagslegu fyrirvarana úr sambandi? Væri ekki skynsamlegra að segja við Breta og Hollendinga: Við skulum standa full skil á skuldbindingunni en einungis þegar við vitum hver hún er, hvernig við ætlum þá að greiða til baka.