138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sama um hvað við fjöllum í þessu máli og öðrum, við verðum að sjálfsögðu að hafa aðgang að gögnum og fá að sjá þau ef þau eru til. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að það getur vel verið að ég muni ekki eftir þessum gögnum sem hv. þingmaður spyr um en ég held hins vegar að í ljósi þeirra efasemda sem komið hafa fram sé mjög mikilvægt að fara betur yfir þann þátt er snýr að stjórnarskránni.

Frú forseti. Ég sakna þess líka að þingmenn Samfylkingarinnar sérstaklega skulu ekki taka meiri þátt í þessari umræðu því að á þeirra vakt varð Icesave til og á þeirra vakt hrundi Icesave. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga. Samfylkingarmenn geta ekki látið endalaust eins og þeir séu hvítþvegnir og beri enga ábyrgð. Það bera allir einhverja ábyrgð og þeirra ábyrgð felst m.a. í því að hafa verið með viðskiptaráðuneytið þegar Icesave varð til, stjórnarformennsku í Fjármálaeftirlitinu og varaformann stjórnar Seðlabankans. Ég sakna þess að Samfylkingin skuli ekki sýna meiri ábyrgð, taka þátt í umræðunni og fara yfir stöðuna eins og hún lítur út fyrir þeim. Icesave er hryllilegt mál sem einkaaðilar stofnuðu til og það er engan veginn sanngjarnt að íslenska þjóðin og Íslendingar framtíðarinnar taki á sig óútfylltan tékka til að greiða skuldir þessara einkaaðila. Það er með ólíkindum þegar við sem viljum ræða þetta mál erum sökuð um málþóf þegar við erum að benda á galla og hluti sem nauðsynlega þarf að skoða.