138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Við höfum sama markmið, held ég, að reyna að benda á hætturnar í málinu eins og það liggur fyrir í dag. Það er í raun hálfkaldhæðnislegt að heyra samfylkingarfólk tala um málþóf þegar hæstv. forsætisráðherra talaði hér í rúma 10 klukkutíma í einni lotu, eins og hv. þingmaður benti á. Það er met, held ég, sem meira að segja ég muni ekki slá þó að ég komi stundum í ræðustól.

Þingmaðurinn fór yfir ýmsar hættur varðandi þennan samning og er ljóst að ýmislegt ber að varast. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þau orð sem féllu í ræðu hjá hæstv. fjármálaráðherra, held ég, þegar hann lýsti því yfir að Evrópusambandið hefði beitt okkur grímulausum hótunum í þessu máli. Hvers vegna ætli svo sé? Hvers vegna ætlar Evrópusambandið að beita sér svona grimmt í þessu máli? Ein ástæðan gæti verið að verja tryggingakerfið sem þeir sjálfir bjuggu til en var ónýtt. Hitt gæti verið að hér sé eitthvað sem þá langar í og vilji þess vegna fá okkur inn í þeirra félagsskap. Það má velta ýmsu fyrir sér. En mig langar að biðja þingmanninn að velta þessu aðeins upp.

Loks langar mig að spyrja þingmanninn vegna þess að hann hefur töluvert meiri reynslu en ég af þingstörfum og alþjóðastörfum: Man hann til þess að nokkurt ríki hafi fengið varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu sinni gagnvart Evrópusambandinu? Þá er ég ekki að tala um einhverjar sardínuveiðar uppi í fjöru heldur varanlegar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins.