138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:53]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekkert land hefur fengið varanlegar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins. Það eina sem er til staðar í þeim efnum er Malta sem fékk undanþágu fyrir nokkra sardínuveiðibáta sem veiða samtals árlega um 1.200–1.500 tonn við Möltu, tegund sem er nánast ekki veidd annars staðar. Við veiðum við Ísland nokkur hundruð þúsund tonn. Það er alveg klárt mál að það hefur ekkert land fengið slíkar undanþágur og stendur ekki til samkvæmt því sem Evrópusambandið hefur sagt. Þess vegna er svo undarlegt að menn skuli leggja kapp á það að eyða miklum peningum, tíma, óvissu, tortryggni og alls konar upplausn vegna þessa máls.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr um ástæðurnar fyrir þessari stefnu og þessari aðför Evrópusambandsins. Það er tvennt sem er alveg ljóst í mínum huga í þeim efnum. Í fyrsta lagi eru þeir að verja vitlausar reglur Evrópusambandsins um tryggingakerfi sem gætu þýtt mikinn óróa og óöryggi um alla Evrópu. Núna eru þeir að breyta þessum reglum í kjölfar hrunsins en vilja fórna Íslandi.

Í öðru lagi vilja Evrópusambandsríkin ná yfirráðum og tökum á auðlindum Íslands til sjávar, til lands, í orku og öllu er lýtur að hinum verðmætu auðlindum Íslendinga.