138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, hæstv. forseti, ég vissi að þetta væri frekar smávaxin undanþága sem Malta hafði fengið, en ekki að hún væri með þessum hætti.

Mig langar að spyrja þingmanninn annarrar spurningar. Hann minntist á í ræðu sinni að við gætum orðið að efnahagslegri nýlendu. Nú er ljóst að efnahagur okkar byggist á fiskveiðum, iðnaði og ferðaþjónustu m.a. Þetta eru helstu greinarnar. Mig langar að biðja þingmanninn að fara aðeins yfir og í raun rökstyðja þá fullyrðingu sína um að við yrðum efnahagsleg nýlenda. Ég geri ráð fyrir að það tengist þeim orðum eða þeim svörum sem ég fékk áðan varðandi Evrópusambandið. En það væri ágætt að fá þetta sett í aðeins stærra samhengi því að í þessu Icesave-máli má ekki með nokkrum hætti að mínu viti samþykkja það að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar, festa einn þriðja eða nærri helming af þeim tekjuskatti sem einstaklingar greiða í landinu í að greiða afborganir af þessum lánum, og um leið að gefa mögulega eftir þann efnahagslega grundvöll sem landið byggir á. Það væri því forvitnilegt ef þingmaðurinn gæti farið betur yfir áhyggjur sínar af efnahagslegu sjálfstæði landsins út frá þeim orðum sem hann hafði áðan um það að við gætum orðið efnahagsleg nýlenda þessara fyrrum nýlenduþjóða sem nú eru hvað stærstar í Evrópusambandinu og hafa ekkert sérstaklega fallega sögu þegar horft er til Asíu, Afríku og annarra heimsálfa.