138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann sé nokkuð að gefast upp á baráttunni. Hv. þm. Björn Valur Gíslason, varaformaður nefndarinnar, sagði undir ræðu þingmannsins að hann syfjaði, hann væri orðinn þreyttur og skömmu síðar gekk hann úr þingsal. Hér skal tekið fram að engir stjórnarliðar eru í þingsal. (Gripið fram í.) Ja, ef þeir vilja koma hingað inn og hlusta þá skulu þeir gera það.

Mig langar til að spyrja þingmanninn á ný hvort hann muni ekki eins og ég berjast fyrir því að vinnandi hendur á Íslandi borgi ekki þá ósanngjörnu samninga sem núverandi ríkisstjórn leggur á skattgreiðendur á Íslandi, fólk sem vinnur heiðarlega fyrir sér, og hvort hann muni ekki berjast gegn þeim í lengstu lög og koma í veg fyrir að þeir verði að veruleika. 80 þúsund Íslendingar, 80 þúsund skattgreiðendur munu greiða alla sína tekjuskatta bara í vexti af Icesave-samningnum. Þetta á að vera í hinu svokallaða skjóli sem ríkisstjórnin hefur reynt að sannfæra land og þjóð um að sé sanngjarnt.

Ég vil enn á ný beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann sé hér að gefa eftir eða hvort hann muni halda baráttunni áfram.