138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er í sjálfu sér nöturlegt að stjórnarliðar skuli ekki þora að koma upp í ræðupúlt og taka þátt í málefnalegum umræðum. Við höfum kallað eftir rökræðum. Við höfum kallað eftir því að öll sjónarmið komi upp á borðið og að við förum yfir þau og ræðum þau. Við ræðum t.d. rakalausar fullyrðingar stjórnarliða um allan þann hræðsluáróður sem á okkur hefur dunið. Við viljum fá rök fyrir því hvað það er, þetta hræðilega sem hefur gerst. Ég hef hingað til hrósað hv. þm. Birni Vali Gíslasyni. Ég hrósaði honum mjög þegar hann fór á sjóinn síðasta sumar. Ég veit að hann var að draga björg í bú og sinna starfi sínu og það var vel. (Gripið fram í.) Ég veit að hann er góður skipstjóri og sinnir áhöfn sinni vel. Það eru reyndar vonbrigði að sjá til hans í þingsal og hvað skyldu skipsfélagar hans segja þegar það spyrst alla leið til Ólafsfjarðar að hann treysti sér ekki til að taka til máls. (Gripið fram í: Sofnar, búinn að því.) Sofnar í þingsal. (Gripið fram í: Búinn að því.) Þreytist yfir umræðunni.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hv. þm. Árna Johnsens hvort hann óttist ekki að með þessu máli séum við að gefa eftir sjálfstæði þjóðarinnar, hvort málið snúist ekki í reynd um að Ísland (Forseti hringir.) sé fullvalda sjálfstæð þjóð?