138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er merkileg hugleiðing. Á árum áður var ég forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þegar ég var prófessor í háskólanum. Þar var oft og iðulega verið að meta þjóðhagslega arðsemi verkefna nákvæmlega út frá því sem hv. þingmaður lýsti hérna. Það var metið hversu mörgum lífum væri hægt að bjarga með tilteknum aðgerðum. Ég veit að þetta hljómar ekki mjög fallega en þar var mannslíf metið yfirleitt á 250 milljónir á þeim tíma. Það hefur hækkað, gætu verið 300 milljónir núna. Ef afleiðingar af skertri heilbrigðisþjónustu væru t.d. þær að fimm fleiri eða tíu fleiri mundu deyja en ella er einfalt að reikna út hver þjóðfélagslegur kostnaður er af því. (Gripið fram í.) Já, segjum þúsund mannslífa, vextirnir eru þúsund mannslíf.

Þetta er meira gert til þess að setja hlutina í samhengi. Við skulum vona að þessar aðgerðir verði ekki til þess að heilbrigðisþjónustu hraki svo mikið að það verði aukin dauðsföll vegna lélegra heilbrigðiskerfis svo lífaldur Íslendinga fari styttist. Það er aftur á móti þekkt að eftir stríð og þess háttar getur slíkt gerst.