138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Halldór skopmyndateiknari á Morgunblaðinu kemst oft nálægt sannleikanum og ég sé hér að í upphafi árs gerði hann skopmynd af sex ára gömlu barni þar sem foreldrarnir segja við það, með leyfi forseta:

„Góða ferð út í lífið. Vinur, þín bíður 26 ára skólaganga á forsendum 20. aldar hugsunarháttar. Og síðan þegar þú verður búinn að aðlaga þig að 21. aldar samfélagi getur þú kannski keypt þér íbúð á uppsprengdu verði á 5,95% vöxtum til 40 ára.“

Þessi ungi piltur, 6 ára, sem er á leiðinni út í lífið er fljótur að reikna og fær það út að þetta gangi upp ef hann nær því að verða 136 ára gamall. Í ljósi þess að skuldirnar eru komnar í 350% af vergri þjóðarframleiðslu og tekjuskattur um 80 þúsund einstaklinga fara í það að greiða af þessum Icesave-skluldbindingum næstu sjö árin hefur þingmaðurinn velt því fyrir sér hvaða skuldbindingar við erum að leggja á komandi kynslóðir. Þessi ungi maður í skopmynd Halldórs var fljótur að reikna og mér þætti áhugavert, vegna þess að ég veit að þingmaðurinn er menntaður hagfræðingur, að velta því upp hvaða skuldbindingar ríkisstjórnin leggur hér á börnin okkar. Hvernig getur staðið á því að skuldir einkafyrirtækis eru allt í einu orðnar (Forseti hringir.) að skuldum komandi kynslóða?