138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt, en ég get hugsanlega varpað einhverju ljósi á það hver áhættan er við þær skuldbindingar sem við erum að undirgangast. Sú skuldbinding sem við undirgöngumst núna er í kringum 750 milljarðar. Síðan er gert ráð fyrir að eitthvað innheimtist af eignum Landsbankans og hægt verði að borga niður eitthvað af þessum skuldum og að við munum standa undir vöxtum og einhverjum hluta af höfuðstólnum 2016 þegar við byrjum að borga.

Það er eitt sem hér er ekki gert ekki ráð fyrir. Hugsum okkur það að sá óróleiki sem er í heiminum núna, og þá sérstaklega í Miðausturlöndum eins og ég hef farið yfir í löngu máli, verði að einhvers konar alheimsfjármálakreppu, að við fáum annan skell á fjármálakerfið. Þá er líklegt að það muni gerast að þessar eignir Landsbankans brenni upp, vegna þess að ef Dúbaí fellur rúllar það inn í breska bankakerfið sem þýðir að það kemst frost þar á, þannig að öll eignasöfn sem Landsbankinn á í Bretlandi munu lækka mjög í virði. Áhættan við þetta er svo mikil að það er óforkastanlegt að gangast við þessum ábyrgðum, (Gripið fram í: Forkastanlegt) forkastanlegt, þakka þér fyrir hv. þingmaður, án þess að (Forseti hringir.) vera með einhvers konar tryggingu eins og við vorum með á efnahagslegu (Forseti hringir.) fyrirvörunum sem nú hafa verið teknir út.