138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem við erum að kalla eftir. Það er ástæða þess að við stöndum hér í ræðustól og ræðum þetta mál. Við óskum einfaldlega eftir því að þau gögn sem vísað er í verði lögð fram. Ég held að þjóðin þoli ekki meira pukur eða meiri leynd. Ég held að krafa nútímans, krafa þjóðfélagsins, sé einfaldlega að allt sé uppi á borðum. Ég held líka að krafa nútímans og samfélagsins sé að menn færi rök fyrir máli sínu. Við stöndum frammi fyrir því aftur og aftur að eitthvað óskilgreint, eitthvað sem er óvíst og jafnvel ekki til, eigi að vera forsenda þess að við eigum að skrifa undir þessa samninga. Ég tek ekki ákvarðanir hér, frekar en ég veit að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerir, án þess að kynna mér málin. Ég held að það sé skylda okkar að við förum (Forseti hringir.) eins gaumgæfilega ofan í þetta mál og (Forseti hringir.) hugsast getur.