138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Því hefur ítrekað verið haldið fram í þessari umræðu að ekkert nýtt sé að koma fram, að þetta sé grímulaust málþóf af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni og manni heyrist að hv. stjórnarliðar séu orðnir leiðir á að sitja hér og hlusta á þessar umræður. Gott og vel. Ég er þessu ekki sammála. Ég hef verið með fyrir fram ákveðna punkta í þessari umræðu, atriði sem ég hefði viljað koma á framfæri, en ég kemst aldrei yfir þá vegna þess að í millitíðinni gerist alltaf eitthvað nýtt.

Á þeim fjórum tímum sem liðnir eru frá því ég tók síðast til máls hefur t.d. komið í ljós að á fundi með sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag hefði því verið haldið fram, af aðalfulltrúa sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að það hafi verið Svíar sem settu það sem skilyrði að Ísland lyki samningum um Icesave við Breta og Hollendinga áður en lán sjóðsins yrðu greidd út. Þetta kom fram á fréttamiðlinum Pressunni. Svíar hefðu farið fyrir Norðurlöndunum en ekki Norðmenn sem þegar hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi ekki beitt sér í málinu. Þetta vakti að sjálfsögðu furðu margra. Ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta, fréttina af Pressunni:

„Fulltrúar úr hópi Íslendinga sem staðið hefur í bréfaskriftum við Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra AGS, áttu í dag fund með Mark Flanagan, aðalfulltrúa sendinefndar sjóðsins, og Franek Rozwadowski, sendifulltrúa hans hér á landi, í Seðlabankanum. Fundurinn stóð í nær tvær klukkustundir. Meðal fulltrúa á fundinum var Ólafur Arnarson, hagfræðingur og Pressu-penni, og segir hann í samtali við Pressuna að á fundinum hefðu nokkrar umræður orðið um þá yfirlýsingu Strauss-Khans, í svarbréfi hans til hópsins á dögunum, að það hefðu verið Norðurlandaþjóðirnar en ekki AGS sem settu það skilyrði að Ísland lyki samningum um Icesave við Breta og Hollendinga áður en lán yrðu greidd út.“

Síðar segir:

„Flanagan var gerð grein fyrir því að ráðuneytisstjóri norska fjármálaráðuneytisins hefði alfarið hafnað yfirlýsingu Strauss-Kahns og fullyrt að það hafi verið Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem setti þessi skilyrði. Flanagan hélt fast við sitt og vísaði til þess að Norðmenn færu ekki fyrir Norðurlöndunum heldur Svíar og þeirra afstaða hefði verið ljós. Honum var þá bent á að burt séð frá öllu þessu hefði þrýstingurinn komið frá stjórn sjóðsins. Ólafur segir að Flanagan hefði aðspurður sagst gera sér grein fyrir því að trúverðugleiki AGS gagnvart Íslendingum í Icesave-málinu væri enginn.“ — Ég held að það sé það eina rétta sem þarna hefur komið fram.

Virðulegur forseti. Þessar upplýsingar komu fram þarna en síðan líður ekki nema rúm hálf klukkustund þar til sendiherra Svíþjóðar ber þetta allt til baka og hann er undrandi á orðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og segir að þetta sé alrangt. Ég fer fram á það, úr þessum ræðustól, virðulegi forseti, að þetta verði skýrt. Hér hafa gengið endalausar misvísandi yfirlýsingar um það að þessi hafi stöðvað lánin, þessi hefði stöðvað áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og maður er löngu kominn í ótal hringi. Ég krefst þess, og ég fer fram á það, frú forseti, að hæstv. ráðherrar, hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, komi í þennan ræðustól og greini frá þessu í eitt skipti fyrir öll. Þetta er eins og heit kartafla sem menn eru að kasta á milli sín og enginn vill grípa. Þetta er fullkomlega óásættanlegt. Ef hv. þm. Guðbjarti Hannessyni finnast þetta ekki nýjar upplýsingar bið ég hann að koma í þennan sama ræðustól og greina mér frá því hvað er satt og rétt í þessu vegna þess að þetta getur ekki gengið svona.

Virðulegur forseti. Í dag héldu formenn stjórnarandstöðuflokkanna blaðamannafund og gáfu frá sér yfirlýsingu um þetta mál. Ég ætla ekki að lesa þá yfirlýsingu þar sem tíminn er svo naumur en ég vil hvetja fólk sem er í einhverjum vafa um að við séum hér í efnislegri umræðu, og að við séum hér að ræða um þetta mál af fullkominni alvöru, að kynna sér þessa yfirlýsingu og þá greinargerð sem fylgir með. Þar er í mjög hnitmiðuðu og skýru máli komið niður á alla meginþætti málsins og nákvæmlega það sem við erum að fara fram á með þessari umræðu. Það er fráleitt, frú forseti, að halda því fram að eitthvað annað vaki fyrir okkur hér en að bregðast við þessu ömurlega máli með þeim hætti að íslensk þjóð geti staðið keik og upprétt hér eftir sem hingað til.

Ég vek athygli á þessari yfirlýsingu og mun kannski koma aftur í annarri ræðu og ræða frekar efnisinnihald hennar ef henni verða ekki gerð skil hér á næstunni. En ég hvet þjóðina og þingmenn, sérstaklega þingmenn stjórnarflokkanna, til þess að kynna sér þetta. Ef þeir hafa ekki kynnt sér málið hingað til geta þeir tekið þetta á tíu mínútum og verið komnir inn í málið.

Síðast þegar ég kíkti, frú forseti, voru 24.908 Íslendingar á póstlista Indefence. Tæplega tuttugu og fimm þúsund Íslendingar eru búnir að kvitta undir þessa yfirlýsingu. Það er því með ólíkindum að lesa í frétt á mbl.is, haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, að sum mál séu ekki til þess fallin að leggja í dóm þjóðarinnar. Þar með er hann að gera lítið úr þessari undirskriftarsöfnun. Hann var spurður að því hvort til greina komi að þjóðin fái að greiða atkvæði um Icesave og sagði að sum mál væru einfaldlega ekki til þess fallin.

Ég vil vekja athygli á því, frú forseti, að 4. mars 2003 sagði þessi sami maður, hv. þingmaður, þá í stjórnarandstöðu, Steingrímur J. Sigfússon, með leyfi forseta:

„Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sal, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, það ætla ég a.m.k. ekki að gera. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið að það sé ekki auðvelt að upplýsa um það og kynna það. Við höfum mikil gögn.“ — Tilvitnun í háttvirtan þingmann í stjórnarandstöðu, Steingrím J. Sigfússon, lýkur.

Og ég segi þetta hér vegna þess að Ólafur Elíasson, talsmaður Indefence-hópsins, segir á mbl.is, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að vera bara tónlistarkennari gengur mér ágætlega að skilja þetta mál. Við í Indefence höfum rætt þetta mál við alla þessa sérfræðinga, þingmenn og ráðherra, og höfum djúpa sannfæringu fyrir því að íslenskum almenningi sé ekki síður treystandi til að taka lokaákvörðun í þessu máli. Þvert á móti.“

Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessi mál betur og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til þess að lesa ræðu sína hér á Alþingi 4. mars 2003. En Samfylkingin er að fara af hjörunum út af þessu máli. Nú eru spunameistararnir aldeilis byrjaðir. Mér var að berast eintak með rafrænum hætti af Rauða þræðinum, póstlista Samfylkingarinnar, þar sem hræðsluáróðurinn er orðinn grímulaus. Ég vil fá að lesa hér. Til þess að réttlæta það fyrir samfylkingarkjósendum sem samfylkingarmennirnir finna að þeir eru að missa — þjóðin, 25.000 manns nú þegar, er farin að skilja að svona má þetta ekki ganga. Þá senda þeir út grímulausan áróður til flokksmanna sinna. Þeir segja hér, með leyfi forseta:

„Afleiðingin er sú að Ísland gæti einangrast á ný og öll fjármálastarfsemi yrði hér fryst að nýju. Við þyrftum að tvíborga upphæð sem jafnast á við ábyrgðina á Icesave-reikningnum, annars vegar í dýrari endurfjármögnun lána ríkis og sveitarfélaga á næstu þremur árum, hækkuðum vöxtum og kostnaði vegna greiðslufalls á erlendum lánum stofnana og fyrirtækja og hins vegar vegna þess að mjög miklar líkur eru á að neyðarlögin yrðu felld fyrir dómi og við þyrftum að greiða öllum erlendum innstæðueigendum á Icesave-reikningum að fullu í staðinn fyrir lágmarksupphæð samkvæmt samningum við Breta og Hollendinga. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn framkölluðu hrun íslensks efnahagskerfis, rauð ljós blikkuðu á íslenska fjármálastarfsemi og að lokum var Ísland fryst. Búið er að eyða ómældum kröftum í að breyta þessu ...“ — bla, bla, bla, áfram heldur það.

Hvar var Samfylkingin þegar rauð ljós blikkuðu? Var hún ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Fór hún ekki með bankamálin? Fór hún ekki með Fjármálaeftirlitið? Fór hún ekki með utanríkismálin, hæstv. utanríkisráðherra? Hvernig má það vera að verið sé að senda út hreinar lygar (Forseti hringir.) (Utanrrh.: Var ég að því?) — já, þú varst að því, hæstv. utanríkisráðherra, ég er að lesa af póstlista Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem væntanlega er sendur með þínu leyfi.

(Forseti (ÞBack): Beina orðum til forseta hv. þingmaður.)

Fyrirgefðu mér, frú forseti.

Mér er mikið niðri fyrir. Mér blöskrar þetta. Við erum hér að ræða um alvarlegt mál. Við erum að ræða um eitt alvarlegasta mál Íslandssögunnar. Það er verið að afvegaleiða íslenska þjóð og það er verið að blekkja hana. Hingað og ekki lengra, við látum ekki bjóða okkur þetta. (Forseti hringir.) Frú forseti, má ég biðja þig að setja mig aftur á mælendaskrá, ég hef hvergi nærri lokið máli mínu.