138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Það er eins og við höfum áður sagt, sífellt hægt að taka þetta mál og ræða nýja fleti og ný sjónarmið á málinu. Mig langaði að nefna, þó að sumt af þessu hafi verið reifað áður, þ.e. kynningin á málinu erlendis og hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að því og hvernig menn upplifa þetta á Norðurlöndunum, svona í ljósi frétta sem alltaf bætast við af þessu sérkennilega máli að í dag fullyrti aðalfulltrúi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Mark Flanagan, að það hefðu ekki verið Norðmenn heldur Svíar sem í fararbroddi Norðurlandanna hefðu sett skilyrði um að lán Íslands yrðu ekki greidd nema við værum búin að ganga frá Icesave-láninu. Svo stuttu síðar kom sendiherra Svíþjóðar og fullyrti að það væri alrangt.

Í ljósi þess sem hv. þingmaður nefndi hér úr grein eftir hv. þm. Ögmund Jónasson, hvort almenningur og jafnvel þingmenn á Norðurlöndunum væru upplýstir um þá stöðu sem er sögð vera hér, að stjórnvöld á Norðurlöndum hefðu staðið að því að kúga okkur til að taka á okkur þessa Icesave-kúgun, vil ég bara kalla það, að menn væru bara ekki upplýstir um það á réttan hátt. Ég hef sjálfur upplifað það í viðtölum við þingmenn þar og ég er sannfærður um að það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að almenningur á Norðurlöndum mundi ekki líða sínum stjórnvöldum slíkt.

Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því hvort hann telji að við gætum ekki hafa gert betur í kynningunni (Forseti hringir.) á Norðurlöndunum og hvort hann deili þessum skoðunum með mér og hv. þm. Ögmundi Jónassyni.