138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar aðeins að halda áfram með þessa umræðu. Í ljósi þess að fréttir af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa núna síðustu daga verið svona alla vega, menn hafa bæði verið að koma hér með fréttir af fundum sem viðkomandi hafa átt með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fréttir sem fjölmiðlar hafa grafið upp og birt, og síðan koma alltaf öðru hvoru yfirlýsingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða ríkisstjórninni um að þetta sé ekki svona og þetta sé alla vega, er svolítið merkilegt að þegar við höfum verið að reyna að fá það fram hverjir hafa verið að setja þessar þumalskrúfur á okkur, höfum við aldrei fengið þau svör. Það vísar alltaf hver á annan.

Ég hjó eftir því í einni fréttinni á Pressunni í dag sem höfð var eftir Ólafi Arnarsyni sem hafði í hópi annarra manna hitt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar hafði aðalfulltrúinn, Mark Flanagan, aðspurður, sagst gera sér grein fyrir því að trúverðugleiki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslendingum í Icesave-málinu væri enginn. Ég veit ekki hvort hann var að vísa til þess að það væri ekki hægt að stóla á það sem þeir segðu, að þeir væru að vísa á Norðmenn einn daginn, Svía annan daginn og svo þriðja daginn að það hefði alls engin pressa komið frá þeim.

Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórninni og forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar hafi tekist að upplýsa okkur í þinginu og auðvitað þjóðina um þetta og kannski tryggja þennan trúverðugleika sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki, og hvort ríkisstjórnin hafi þennan trúverðugleika. Það er svolítið merkilegt í ljósi þess að í raun og veru hafa aðilar eins og Gunnar Sigurðsson leikstjóri fengið meiri og betri upplýsingar á borðið (Forseti hringir.) en við höfum getað fengið í gegnum nefndir þingsins og hér úr ræðustól þar sem við (Forseti hringir.) höfum verið að reyna að draga þær upp úr forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Mig langar aðeins að heyra vangaveltur þingmannsins um þetta.