138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Guðbjarti Hannessyni er mikið niðri fyrir og hefur margt fram að færa í umræðunni. Ég bendi honum á að hann á hér inni, hygg ég, alla vega hálftíma langan ræðutíma sem hann gæti notað til þess að gera grein betur fyrir þessum sjónarmiðum sínum. Hann gæti einmitt fylgt sjónarmiðum sínum eftir og reynt að sannfæra okkur um að við séum á villigötum í athugasemdum okkar. En ég ætla að bregðast örstutt við nokkrum af þeim fjölmörgu punktum sem hann kom inn á.

Í fyrsta lagi er eitt að ákveða að leita eftir samningum og annað að samþykkja þá samninga sem liggja fyrir. Við vitum það og munum það að þegar þingsályktunartillaga hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um að fara í samningaferli var samþykkt hér á þingi. Var það gert með skýrum hætti. Í nefndaráliti meiri hluta utanríkisnefndar var samþykkt að áskilja Alþingi rétt til þess að fjalla um niðurstöðu samninga þegar málið kæmi aftur þegar búið væri að fá niðurstöðu úr samningum og Alþingi gæti metið hvernig með skyldi fara. Sú ákvörðun um að fara í samningaferli skuldbindur menn ekki til að styðja niðurstöðu sem þeir eru ekki sáttir við, að sjálfsögðu ekki. Eitt er að byrja samningaviðræður, annað er að samþykkja samninga sem liggja fyrir. Í þessu máli er alveg klárt hvernig þau mál liggja.

Varðandi það að leita til Evrópusambandsins játa ég alveg að ég hugsaði mig um vegna þess að í málinu hefur Evrópusambandið verið frekar „partískt“ og okkur ekki hliðhollt að því er mér sýnist og eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra segir. Hins vegar er það þannig að Brussel-viðmiðin sem við vísum til voru m.a. byggð á því að unnið yrði að málinu áfram í samstarfi við Evrópusambandið, þannig að þessi yfirlýsing stjórnarandstöðuflokkanna er í fullu samræmi við það.