138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Evrópusambandið og EES-hópurinn eru enn þá í nýjustu útgáfu þessa máls, í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Við erum því ekkert búin að missa af því og erum örugglega sammála um að við gætum þurft að beita þessum aðilum í lausn málsins í framhaldinu með þeim fyrirvörum sem þegar eru í frumvarpinu.

Við erum örugglega sammála um það, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, að Alþingi átti alltaf að koma að þessu máli og það er eðlilegt að það geri það þó að sumir hafi sagt að hér ætti að vera leynd og að það ætti ekki að leggja málið fyrir o.s.frv., en það er bara hluti af því bulli sem við verðum að hlusta á hér í þingsölum oft og tíðum.

Annað sem mér finnst athyglisvert við þessa yfirlýsingu í dag er að hér eru ein 16–18 atriði talin upp sem þurfi að meta betur. Mér sýnist í fljótu bragði að obbinn af þessum atriðum hafi verið rædd í sumar og fram eftir hausti í fjárlaganefnd og get því ekki litið öðruvísi á það en að þeir sem þarna skrifa undir, formenn stjórnarandstöðuflokkanna, lýsi þar yfir eindregnu vantrausti á fulltrúa sína í fjárlaganefnd sem hafa greinilega ekki unnið að þeim skýrslum sem þar hafa verið lagðar fram. Það hafa verið lagðar fram einar sex skýrslur um efnahagsástandið. Við hlustuðum OECD. Við hlustuðum á AGS. Við fengum skýrslu frá fjármálaráðuneytinu, frá Seðlabankanum, frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Ekkert af því er nothæft þannig að það væri gaman að vita hvernig menn telja að hægt væri að vinna framhaldið með þeim sömu mönnum sem tóku á móti þessum skýrslum og túlkuðu þær og fluttu. Það er með ólíkindum ef menn ætla að fela sömu aðilunum að túlka þetta í framhaldinu þegar óskað er eftir mati á hlutunum.

Það hefði verið gaman að hv. þingmaður svaraði varðandi íslensku dómstólana, þ.e. að Bretar og Hollendingar færu fyrir héraðsdóm í milliríkjadeilu við Ísland, hvort honum finnist það líklegt. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það svartnætti sem þeir hafa málað varðandi það að (Forseti hringir.) hrunsástand verði hér í mörg ár og efnahagsleg vandræði, að við getum ekki borgað eitt né neitt, (Forseti hringir.) sé feluleikur frá hinum kalda veruleika sem við búum við vegna skuldsetninga út af hruninu? (Forseti hringir.)