138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið í þessu andsvari og kannski misnota það aðeins vegna þeirra orða sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson beindi til mín áðan varðandi það hvort Evrópusambandið gæti miðlað málum og hvernig mér litist á það. Ég verð að segja að jafnvel þó að ég telji þá valdablokk ríkja vera algjörlega óþarft apparat, sé á móti því á öllum stigum og telji að þeir hafi beitt sér mjög hart gegn okkur þá er það nú þannig að við erum með þessum klúbbi í samningi sem kallast samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Meðal annars má fullyrða að gallar í honum hafi reynst okkur dýrkeyptir. Því er ekkert athugavert við það og í rauninni eðlilegt að reyna að höfða til samvisku ríkja — ef sú samviska er enn þá til — innan Evrópusambandsins, að það apparat beiti sér til þess að leiða þetta mál til lykta og þá á þeim jafnræðisgrunni sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið þýðir fyrir þessar þjóðir. En nóg um það.

Varðandi þessa miðlun, eða í rauninni þessa milliríkjadeilu sem hv. þingmaður nefndi svo, langar mig að velta því upp hvort það geti verið ein af mistökunum sem gerð hafa verið í þessu máli — við verðum að átta okkur á því að það er auðvelt að gera mistök undir mikilli pressu eins og verið hefur í þessu máli og við verðum því líka að vera reiðubúin að fyrirgefa þegar menn viðurkenna mistök sín — geta ein mistökin verið að líta svo á að þessi samningur eða þessi hlutur sé einkaréttareðlis í staðinn fyrir að leysa hann sem milliríkjamál, af því að þetta eru þjóðir að tala við aðrar þjóðir?