138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið merkilegur dagur og gagnmerkar umræður sem fram hafa farið um þetta eitt stærsta mál Íslandssögunnar hér á þinginu. En ég hef, eins og ég lýsti yfir í síðustu ræðu minni, ekki náð að tæma mitt mál. Í þessari umferð um málið hef ég verið að leita eftir því hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað hvaða aðrar leiðir þeir sjá í þessu máli. Það er vegna þess að við höfum verið sökuð um það af stjórnarliðum að vera í málþófi og hafa ekkert til málanna að leggja. Það er náttúrlega ljóst, frú forseti, að þeir stjórnarliðar sem ekki blanda sér í umræðurnar og ekki hlusta á mál okkar geta að sjálfsögðu setið heima hjá sér við eldhúsborðið og haft þá skoðun, en það er hins vegar rangt.

Nú hefur verið birt, frú forseti, á blaðamannafundi yfirlýsing frá formönnum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Hreyfingarinnar vegna þessa máls. Yfirlýsingin felur það í sér að stjórnarandstaðan mun leggja til að frumvarpi fjármálaráðherra verði vísað frá og til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Þetta er það sem ég hef verið að tala fyrir hér í þinginu, og við stjórnarandstæðingar, enda teljum við að ríkisstjórninni beri að taka þetta mál upp að nýju og fara yfir það enn og aftur við Hollendinga og Breta. En jafnframt teljum við mikilvægt að það komi þar inn milliliður, þriðji aðili, til þess að reyna að sætta sjónarmiðin. Ég tel gríðarlega mikilvægt að stjórnarliðar skoði þessa leið stjórnarandstöðunnar vegna þess að við berum ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Við verðum að setjast niður saman, stjórn og stjórnarandstaða, og reyna að finna leið út úr þessu máli. Sú leið sem ríkisstjórnin hefur lagt fram er einfaldlega ekki boðleg og gengur ekki upp.

Frú forseti. Nú hafa rúmlega tuttugu og fimm þúsund Íslendingar undirritað áskorun til forseta Íslands á vef Indefence. Þar er skorað á forsetann að staðfesta ekki þau lög sem koma til hans verði þetta frumvarp samþykkt hér á Alþingi. Tuttugu og fimm þúsund Íslendingar hafa undirritað slíka yfirlýsingu. Það þykir mér mikið og það sýnir mér, frú forseti, að fólk er að fylgjast með umræðum og hefur sterkar skoðanir á þessu máli og styður þann málflutning sem við höfum haft uppi í þinginu, að það verði að skoða þetta mál betur.

Frú forseti. Eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir nefndi hefur borist okkur til augna fjölpóstur sem sendur er á póstlista Samfylkingarinnar sem heitir Rauði þráðurinn. Þar kemur fram, undir fyrirsögninni Icesave eða ÍSÖLD — takið eftir með hástöfum, hvorki meira né minna — og farið er yfir það í nokkrum orðum að Sjálfstæðisflokkurinn sé að framkalla nýtt efnahagshrun á Íslandi, nýja ísöld í fjármálalífi þjóðarinnar. Enn og aftur er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn sem Samfylkingin man að er til. Þau muna ekki sjálf, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, eftir að hafa verið með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn, þar vorum við greinilega ein. Og eins muna þau ekki eftir félögum okkar í stjórnarandstöðunni, Framsókn og Hreyfingunni. En í þessum makalausa tölvupósti er því haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að framkalla nýtt efnahagshrun á Íslandi, hvorki meira né minna en nýja ísöld í fjármálalífi þjóðarinnar.

Frú forseti. Þetta mál hefur allt einkennst af hótunum, grímulausum hótunum, ef maður notar það orðfæri sem hæstv. fjármálaráðherra notar um málflutning Evrópusambandsins. Hér er enn ein hótunin komin fram. Nú skil ég kannski hvaða þrýstingi hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru undir af hálfu flokksforustunnar og af hálfu þeirra sem sitja í ríkisstjórn, enda fullyrti hæstv. forsætisráðherra það úr þessum stól hér um daginn að fram undan væri frostaveturinn mikli ef við mundum ekki samþykkja þetta frumvarp þegjandi og hljóðalaust.

Frú forseti. Ég er algjörlega ósammála þessu. Þetta er ekki fyrsta hótunin sem við fáum að heyra frá ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli. Endalausar hótanir hafa einkennt þetta. Síðast í dag fengum við þá hótun frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að þar sem það sé hennar skoðun að við séum hér í málþófi, stjórnarandstaðan, þurfi bara að breyta þingsköpum til þess að stoppa okkur. Breyta þingsköpum, frú forseti. Þetta er nú öll lýðræðisástin þegar á fer að reyna. Hér tala stjórnarliðar og hafa talað æ ofan í æ frá því við settumst á þing eftir kosningar, um lýðræðisleg vinnubrögð, gagnsæi, opna stjórnsýslu og málefnaleg sjónarmið.

Frú forseti. Nú sannast það enn og aftur að þær fullyrðingar eru einfaldlega í orði en hvergi sjáanlegar á borði. Það er ekkert annað í spilunum hjá stjórnarliðum en að taka af stjórnarandstöðunni málfrelsið, að mati hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Breyta þurfi þingsköpum svo að við förum að þagna. En það er þannig, frú forseti, að þjóðin þagnar ekki í þessu máli. Og þeir rúmlega tuttugu og fimm þúsund einstaklingar sem hafa undirritað áskorun til forseta Íslands munu ekki segja stopp. Þeir munu halda áfram málflutningi sínum eftir því sem mér sýnist. Og hvað gerist þá, frú forseti?

Í fjölmiðlum hefur komið fram yfirlýsing frá hæstv. fjármálaráðherra um að þetta mál henti ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu, þetta mál og sum mál henti ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er frekar merkileg yfirlýsing, frú forseti, þar sem sami maður, þá sitjandi í stjórnarandstöðu, taldi aðila sem héldu slíku fram vera með fráleitan málflutning. Sá maður, sem sat þá í stjórnarandstöðu, sagði, með leyfi forseta:

„Það er aldrei hægt að nota slík rök gegn beinu lýðræði. Það er ævinlega rétthærra heldur en eitthvað fulltrúalýðræði af þessu tagi, að sjálfsögðu með fullri virðingu fyrir því.“

Frú forseti. Enn og aftur hefur hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, snúist á punktinum. Þessi umskipti eru hreint makalaust. Þetta var sagt í umræðum á Alþingi 4. mars 2003, það er ekki lengra síðan en svo. Kjósendur Vinstri grænna kannast nú væntanlega við það að sá flokkur og forsvarsmenn hans eru tilbúnir að snúast í öllum málum, samanber hvernig þeir fóru með atkvæði sín þegar greidd voru atkvæði um að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég skil ekki hvernig sá flokkur ætlar að útskýra málflutning sinn fyrir kjósendum sínum.

Frú forseti. Líkt og fram kom í andsvörum hér rétt á undan tel ég að sú hugsanavilla sé í gangi hjá ýmsum úti í samfélaginu, og jafnvel ýmsum hér á Alþingi, að göngumst við undir þessa nauðasamninga Breta og Hollendinga þurfum við kannski á endanum ekkert að borga vegna þess að þetta verði allt saman fellt niður þegar við fáum aðgöngumiðann að Evrópusambandinu. Þessi hugsanavilla gæti verið skýringin á því hvers vegna þeir hinir sömu þingmenn þora ekki að koma hingað í stólinn og rökstyðja mál sitt, og hvers vegna þeir hinir sömu þingmenn geta ekki útskýrt fyrir okkur hér né útskýrt fyrir þeim sem heima sitja og hlýða á mál okkar hvers vegna þeir ætla að greiða atkvæði með þessu máli. Ég tel einfaldlega að það sé stórhættulegt að sú staða sé hér uppi, að einhverjir hér úti ætli sér að ríghalda í þá trú, að Evrópusambandið komi til með að bjarga okkur og fella þetta niður. Og ég vona að þetta sé rangt. Ég vona svo sannarlega að þessi grunur minn, og fleiri þingmanna, sé rangur, en ég óttast, ber þann ugg í brjósti, að svo sé.

Frú forseti. Ég vil ítreka fögnuð minn yfir því að nú sé komin fram þessi yfirlýsing frá stjórnarandstöðuflokkunum varðandi í hvaða farveg við hér á þingi viljum setja þetta mál. Upptalin eru í yfirlýsingunni fjölmörg atriði sem þarf að fara vandlega yfir í fjárlaganefnd. Ég tel brýnt að stjórnarliðar skoði þetta vel, vegna þess að ég er þess fullviss, ég er enn þess fullviss, að þarna úti séu menn sem sitja hér á þingi fyrir stjórnarflokkana sem eru ekki sannfærðir um að þetta sé rétta leiðin. Ég skora enn og aftur á þá hv. þingmenn, þá hugrökku þingmenn, sem ég veit að eru hér úti, að skoða þetta mál enn og aftur, skoða rök okkar í stjórnarandstöðunni. Það er engin skömm að því að skipta um skoðun í þessu máli. Það er engin skömm að því vegna þess að þetta er eitt stærsta mál Íslandssögunnar. Við verðum að geta staðið hér keik eftir 10 ár, 20 ár, 30 ár þegar við mætum þeim ungu kynslóðum sem eiga eftir að bera þessar klyfjar að mestu og útskýra, geta rökstutt það, hvernig við tókum ákvörðun hér inni, frú forseti.

Það voru hugrakkir menn sem settust hér niður í sumar og breyttu sögunni, skrifuðu fyrirvaralögin, skrifuðu fyrirvarana. Þeir hinir sömu geta ekki með góðri samvisku, frú forseti, að mínu mati samþykkt þetta frumvarp. Komið nú fram, hv. þingmenn, skoðið þetta mál enn og aftur og kíkið yfir yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.) Það er vel þess virði. Við skuldum komandi kynslóðum það.