138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir áhugaverða ræðu, áhugaverðar upplýsingar um þá staðreynd að stjórnarliðarnir hafa þagað hér þunnu hljóði í allt haust og þau einu skilaboð hafa komið fram, svo merkilegt sem það hljómar þegar maður segir það eða hlustar, að í meðförum Breta og Hollendinga hafi fyrirvararnir sem við settum eftir langa og stranga vinnu í sumar gert það að verkum að staða Íslands sé betri en áður, eins ótrúlegt og það nú hljómar. Ég er ekki viss um að ég muni eftir ræðum hv. þingmanna, þó er eins og mig rámi í ræðu hæstv. ráðherra Árna Páls Árnasonar frá 2. júlí þegar hann ræddi þar um sína ESB-trú og þá sannfæringu sína að Evrópusambandið muni leysa öll okkar vandamál.

Því langar mig að velta því upp og spyrja hv. þingmann hvort hann sé á þeirri skoðun eða hvernig hann líti á það að sú leið sem við erum að því er virðist á, leið ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar, að samþykkja Icesave-samningana, það eru til aðilar sem halda því fram að um leið og við séum búin að samþykkja Icesave-samningana eigum við aðeins þann kost einan og nauðugan að ganga í Evrópusambandið, það sé þvingun til þess, því að öðrum kosti munum við ekki geta tekið þessa samninga upp til viðræðna við aðra eða hugsanlega líka verði skuldbindingar orðnar með þeim hætti að það verði einfaldlega ekki neinar aðrar útgönguleiðir fyrir okkur en að ganga í Evrópusambandið, hvort þingmaðurinn telji að (Forseti hringir.) þetta sé svona nálarauga, göngin, Icesave-samningurinn að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu.