138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar hann fór yfir orð þeirra ráðherra og þingmanna sem hann las hér upp, sérstaklega hvernig þeir hafa komið að umræðu um þetta mál sem er ekki mjög mikil samkvæmt þessari ræðu hv. þingmanns.

Mig langar að biðja þingmanninn — til að það komist alla vega í Alþingistíðindi — að rifja upp með mér hverjir voru með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn fyrir rúmu ári. Ég vil taka fram að enginn skal halda annað en að ég telji að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á sinni stjórnartíð jafnt og Samfylking. En svo virðist sem þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar séu í einhverri afneitun um að hafa verið í ríkisstjórn. Getur verið, hv. þingmaður, að fjarvera sérstaklega samfylkingarmanna hér í dag einkennist af feimni við stjórnartíð þeirra allt frá kosningum 2007, held ég að hafi verið? Getur það verið?

Frú forseti. Það er mikilvægt að reyna að upplýsa það og komast að því hvað veldur fjarveru samfylkingarþingmanna og -ráðherra í þessu máli. Staðreyndirnar eru vitanlega þær að á sínum tíma, þegar Icesave-ævintýrið hrundi, var samfylkingarmaður viðskiptaráðherra, samfylkingarmaður var formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, ef ég man rétt, og sá sami ágæti maður var varaformaður stjórnar Seðlabankans. Ég velti því fyrir mér, í ljósi ræðu hv. þingmanns, hvort þessi feimni við fortíðina skýri fjarveru Samfylkingarinnar hér í þingsal.