138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við þekkjum þurfa þeir flokkar sem á hverjum tíma stjórna eða stýra landinu og landsmálum, líkt og í sveitarstjórnum, yfirleitt að taka ákvarðanir, þurfa eðlilega að draga ýmislegt með sér í framtíðinni, þ.e. þeir þurfa oft að taka ýmsar ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim þegar fram líða stundir. Flestir stjórnmálaflokkar hér á Alþingi kannast við það. Sumir flokkar hafa reyndar annaðhvort skipt um nafn eða sameinast og orðið þá einhverjir nýir og þykjast geta klórað yfir fortíðina. Því er t.d. haldið mjög á lofti að það séu einhverjir aðrir flokkar en t.d. Samfylking og Vinstri grænir sem hafi fundið upp kvótakerfið.

Ég hef velt því fyrir mér, hæstv. forseti, og vil gjarnan spyrja hv. þingmann að því, hvort hann telji að þetta Icesave-mál muni geta orðið sorglegur minnisvarði um þá stjórnmálaflokka, um þá stjórnmálamenn, sem samþykkja munu að leggja þessa áþján á íslensku þjóðina. Mun Icesave-málið fylgja þeim eins og skugginn inn í framtíðina líkt og mörg önnur vond mál hafa fylgt Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Alþýðuflokknum gamla o.s.frv.? Mun Icesave-málið verða eitt af þessum málum sem munu fylgja þessum flokkum inn í framtíðina? (Gripið fram í.)

Icesave-flokkarnir, já, það er ágætisnafn — við skulum hafa þetta í huga, hæstv. forseti. Mun Icesave-málið fylgja þeim inn í framtíðina og verða þeirra myllusteinn?