138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn þetta Icesave-mál og erum hvergi nærri búin að ræða það að mínu mati vegna þess að það er ekki enn þá ljóst hvernig stjórnvöld munu taka á þeim athugasemdum sem komið hafa fram í umræðunni á síðustu dögum. Það er nauðsynlegt að fá svör við því áður en málið er klárað og sent til nefndar.

Þetta eru reyndar ekki nema 10 mínútur sem ég hef núna en ég vil í upphafi máls míns segja að þegar við sem höfum miklar áhyggjur af þessu máli erum sökuð um málþóf er það að mínu viti lýðskrum og auglýsingamennska þeirra sem segja það. Ástæða þess að við stöndum hér og komum mikið í ræðustól til þess að ræða þetta mál er fyrst og fremst sú að við höfum gríðarlegar áhyggjur af því hvað þetta mál muni þýða fyrir þjóðina og framtíð hennar. Það er ekki af sérstakri gleði eða áhuga á þessum ræðustól sem mörg okkar fara hingað upp trekk í trekk til þess að varpa ljósi á hættuna í þessu máli og fá svör um það hvernig á því verður haldið. Nei, það er vegna þess að við höfum skrifað undir ákveðinn eið og viljum standa við hann.

Ég kláraði fyrr í dag að fara yfir grein sem rituð var vegna þess að þrír ágætir lögmenn höfðu áhyggjur af stjórnarskránni. Ég var byrjaður að fara yfir aðra grein sem er á svipuðum nótum og er rituð af Ragnari Halldóri Hall en sá ágæti lögmaður hafði veruleg áhrif á það hvernig frumvarpið leit út sem samþykkt var í lok ágúst. Þar var ákveðinn fyrirvari sem kenndur var við hann, Ragnars H. Halls-fyrirvarinn er hann gjarnan kallaður, en nú er búið að setja þann fyrirvara í annan og verri búning. Lögmaðurinn fjallar hér um grein sem annar lögmaður skrifaði, Sigurður Líndal, um stjórnarskrána og með leyfi forseta ætla ég að lesa aðeins upp úr grein Ragnars Halldórs Halls. Hér segir:

„Í stuttri og gagnorðri grein í Fréttablaðinu 19. þessa mánaðar“ — það er þá nóvember sl. — „benti Sigurður Líndal lagaprófessor á þá staðreynd að engin raunveruleg úttekt lægi fyrir um það hvort efni lagafrumvarpsins, eins og það liggur fyrir þinginu, samrýmdist stjórnarskrá lýðveldisins. Í seinni tíð virðast menn umgangast stjórnarskrána af meiri léttúð en lengst af áður, og enginn stjórnarþingmaður virðist taka slíka ábendingu alvarlega. Þetta mál er þó af þeirri stærðargráðu að við getum ekki leyft okkur að ljúka meðferð þess án þess að hugað verði að þessu atriði. Þegar aðild að EES var í undirbúningi hér á landi var nefnd sérfræðinga falið að semja ítarlega og rökstudda úttekt á því hvort fyrirliggjandi samningsdrög færu í bága við stjórnarskrána. Málið var ekki afgreitt á Alþingi fyrr en niðurstöður þessara sérfræðinga lágu fyrir.“

Hér bendir þessi ágæti lögmaður, sem fjárlaganefnd og Alþingi tóku það mikið mark á að fyrirvari kenndur við hann var settur inn í frumvarpið sem samþykkt var í ágúst, á annan hlut sem enn fleiri lögmenn hafa bent á og það er hvort það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu standist stjórnarskrána. Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var í undirbúningi var sérfræðinefnd falið að skoða stjórnarskrárþáttinn. Þótt það hafi vissulega verið mikið og afdrifaríkt skref að samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið — fullyrða má að það hafi bæði verið jákvætt og neikvætt skref — var nefnd sérfræðinga fengin til að skoða stjórnarskrána. Ég spyr mig að því eins og margir aðrir: Hví í ósköpunum er það ekki gert einnig þegar til stendur að skuldbinda þjóðina um ófyrirsjáanlega framtíð, hugsanlega um hundruð milljarða króna ef verst lætur? Það hefur ekki heldur að mínu viti verið sýnt fram á hvernig við getum risið undir þeirri byrði.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa aðeins lengra í greininni. Ragnar heldur áfram:

„Ég er sömu skoðunar og Sigurður Líndal um það, að hagsmunir sem hér eru í húfi séu slíkir að verulegur vafi sé á því að efni Icesave-frumvarpsins sé samþýðanlegt stjórnarskránni. Ég skora á alþingismenn að láta fara vandlega yfir það atriði áður en þetta frumvarp verður tekið til endanlegrar afgreiðslu.“

Nú hafa ekki komið fram formleg álit — eftir því sem okkur skilst hefur einn lögmaður sem kom fyrir fjárlaganefnd skilað skriflegum texta en hinir þrír ekki. Það segir vitanlega ekkert um vilja eða getu þessara ágætu þriggja lögmanna sem ekki skiluðu áliti. Ég held að það væri nær fyrir stjórnarmeirihlutann að fá þá prýðislögmenn til að skrifa slíkt álit ef þeir eru fáanlegir til þess því það er að mínu viti óásættanlegt fyrir Alþingi að fjalla um mál sem þetta án þess að hafa á hreinu hvernig stjórnarskráin kemur út úr því.

Frú forseti. Ég ætla í lokin aðeins að skipta um gír. Ég ætla að lesa upp frétt, með leyfi forseta, og gá hvort þingmenn kannist við það sem hér segir. Þó er eitt nafn í þessari frétt sem ég ætla ekki að lesa upp en ég mun segja frá því á eftir. Með leyfi forseta:

„Það kemur og á óvart að […] skuli beita svo mikilli hörku í ekki mikilvægara máli. Í leiðara [fréttablaðs] í dag er talað um valdahroka og að forsætisráðherra misbeiti valdi sínu gagnvart […] þinginu. Í öðru blaði kalla leiðarahöfundar framgöngu forsætisráðherra neyðarlegt rugl. Fjölmiðlamenn hér halda að […] sé að undirbúa harðan niðurskurð á ríkisútgjöldum til að koma í veg fyrir ofþenslu í efnahagslífinu.

Jafnframt er ljóst að andrúmsloft kringum ríkisstjórnina er mikið breytt frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Ný skoðanakönnun sýnir að fylgi […], flokks forsætisráðherra, hefur minnkað um sjö prósent á einum mánuði og að flokkurinn mundi tapa …“

Og svo framvegis. Þegar ég las þessa frétt datt mér í hug ákveðið land sem heitir Ísland en þessi lýsing á við um Noreg. Ég las hér upp úr frétt um Stoltenberg, flokksbróður hæstv. forsætisráðherra Íslands, og ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort það séu hreinlega samantekin ráð hjá forsætisráðherrum verkamannaflokkanna á Norðurlöndum og í Bretlandi að hafa sama stjórnunarstíl. Ég velti því alvarlega fyrir mér hvort verkamannaflokkar standi fyrir stjórnunarstílsnámskeiðum fyrir hverjar kosningar þar sem foringjaefni þeirra fái leiðsögn í því hvernig eigi að koma fram.

Frú forseti. Nú rifjast eitt upp fyrir mér. Mér þykir leitt að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki hér lengur en hann kemur kannski í kvöld og svarar þessu þá. Mér var sagt frá því að hann væri eða hefði verið skráður félagi í breska Verkamannaflokknum. Það væri nú forvitnilegt að athuga hvort hæstv. utanríkisráðherra sé enn skráður félagi í breska Verkamannaflokknum. Þá vakna nokkrar spurningar í framhaldi af því, til dæmis hvort ráðherrann sé hreinlega hæfur til þess að fjalla um málið á Alþingi ef hann er hluti af því flokksapparati sem er að kúga íslensku þjóðina en það er að sjálfsögðu forustusveit Verkamannaflokksins í Bretlandi.

Ég hef eins og flestir Íslendingar aldrei hitt þennan Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, en ég verð þó að segja eins og ég heyrði fullorðna konu segja einu sinni: Svipurinn er ljótur. Ég velti fyrir mér hvað vaki fyrir framámönnum verkamannaflokkanna á Norðurlöndum eða í Evrópu. Ég hygg að Stoltenberg, forsætisráðherra Íslands og Gordon Brown eigi sameiginlegt áhugamál sem er blessað Evrópusambandið. Það á eftir að sýna mjög fram á kosti þess félagsskapar en hins vegar vildi ég vekja athygli á þessari frétt varðandi stjórnunarstíl Stoltenbergs því það fór um mig léttur hrollur þegar ég las hana.