138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir áhugaverða ræðu og kenningar. Ég leyfi mér að skjóta fram þeirri tillögu að námskeiðið góða hjá verkamannaflokkunum gæti kallast „Listin að stjórna með hótunum“.

Hv. þingmaður talaði svolítið um stjórnarskrána, að við og ýmsir fræðimenn í samfélaginu hefðum áhyggjur af því hvernig við í þinginu umgengjumst hana og að það álitaefni væri uppi hvort það frumvarp sem við ræðum nú stæðist skoðun gagnvart stjórnarskránni. Ég man ekki hvort hv. þingmaður var viðstaddur hérna á miðvikudagsmorguninn um klukkan 5.21 er ég hélt ræðu um Icesave og fékk hæstv. fjármálaráðherra upp í andsvar við mig. Þar lét hann þau orð falla, eftir að ég hafði lýst áhyggjum mínum af þessu atriði varðandi stjórnarskrána, að það væri nú búið að skoða þetta allt saman og ríkisstjórnin hefði að sjálfsögðu skoðað þetta áður en hún tók ákvörðun um að skrifa undir samningana. Þetta voru nýjar fréttir fyrir mig. Ég er búin að lesa enn og aftur í gegnum öll skjölin sem okkur hafa verið birt í þessu máli en ég finn engin gögn um þetta. Jafnframt finnst mér áhugaverð sú skoðun hæstv. fjármálaráðherra — segjum að þetta hafi verið gert og það sé rétt hjá ráðherranum að þessi skoðun hafi farið fram, er það þá fullnægjandi gagnvart löggjafarvaldinu? Þótt framkvæmdarvaldið hafi látið fara fram einhverja skoðun sem hvergi hefur verið birt, er þá fullnægjandi að hæstv. fjármálaráðherra komi einfaldlega í andsvar og upplýsi þingheim um að þessi skoðun hafi farið fram, allt sé í lagi og við eigum að hætta að tala um þetta atriði af því að þetta liggi allt saman fyrir?

Í fyrsta lagi vil ég athuga hvort hv. þingmaður sé sammála þessari túlkun hæstv. fjármálaráðherra og í öðru lagi hvort hann hafi einhvers staðar fundið eða séð þessum gögnum sem hæstv. ráðherra vísaði (Forseti hringir.) til stað.